28.10.2015 10:05

Æfintýrið um vonina

Eftir Stein.

Ég opnaði hurðina ofurhægt, það gat verið að amma væri sofandi. Nei, þarna sat hún í rökkrinu og prjónaði. Ég læddist til hennar ósköp hægt, settist á skemilinn við fætur hennar og lagði höfuðið í kjöltu hennar. Það hafði gefist vel þegar ég var lítill og eitthvað amaði að mér, hvort sem ég hafði meitt mig, eitthvert leikfangið mitt brotnað eða hinir krakkarnir strítt mér. Amma hafði alltaf ráð og huggun á reiðum höndum. Nú var ég orðinn fullorðinn, en mig vantaði huggun. Amma lagði frá sér prjónana og lagði lófann ofan á vanga minn, alveg eins og meðan ég var barn. „Æ, amma mín“ sagði ég, hvernig er þetta líf ? „ Við reisum okkar fegurstu skýjaborgir, sem á einu augabragði hrynja í rúst. Dauðinn sviftir okkur ástvinunum, heimurinn gleðinni. Hvað er þá eftir ? Til hvers er að lifa þegar allt er tóm auðn og myrkur og hvað tekur við ? Ég get ekki einu sinni vitað með vissu að nokkurn tíman verði bjart framar. Sólin gæti slokknað og allt kólnað og storknað. Það væri nú reyndar það besta.“ Amma strauk ofurhægt eftir vanga mínum.

 „Þú gleymir einu barnið gott, þegar vinirnir deyja, og gleðin hverfur, þá eigum við þó eitt eftir, sem Guð gaf okkur sjálfur, og sem enginn getur tekið frá okkur, það er vonin. Hún gefur okkur vissuna um að lífið heldur áfram, að sólin rís á hverjum morgni og að Guð mun aldrei þreytast á að gefa okkur góðar gjafir. Þér þótti einu sinni gaman að æfintýrum. Viltu að ég segi þér eitt núna ?“

„Já, gerðu það, ef til vill styttir það daginn ofurlítið“ tautaði ég og lagði aftur augun, en amma hóf söguna.

„Guð hafði rekið mennina úr Paradís, og þau sem ekkert höfðu þurft að hafa fyrir lífinu, þurftu nú allt í einu að sjá sér fyrir öllu. Já, það mátti nú segja, að þau neyttu brauðs síns í sveita síns andlitis. Á daginn brenndi sólin þau og á næturnar nísti kuldinn þau. Eirðarlaus flökkuðu þau um og fannst þau hvergi eiga höfði sínu að að halla. Villidýrin hræddust þau, og þau áttu fullt í fangi með að veiða sér til matar, og smám saman læsti örvæntingin heljargreipum sínum um sálir þeirra.

Kvöld eitt, þegar Adam kom heim, dauðuppgefinn eftir erfiðan og árangurslausan dag, fleygði hann sér niður, jós sandi yfir höfuð sitt og formælti sjálfum sér. Þegjandi hlustaði Eva á þetta. Hún vissi þetta allt saman og hafði alltaf vitað. Adam hafði ekki hugmynd um öll tárin, sem hún hafði fellt og allar andvökunæturnar sem hún hafði átt.

Adam var þreyttur og sofnaði brátt, þá stóð konan upp og fór af stað. Hún stefndi í vesturátt, þangað sem kvöldroðinn gyllti stórkostlegt hlið Paradísar, eða ef til vill var það logasverðið, sem ljómaði þar. Leiðin var löng og henni virtist sem hún kæmist aldrei þangað, en loksins, loksins komst hún alla leið. Engillinn með logasverðið stóð þar strangur og alvarlegur. „Hvað villt þú“ ? spurði hann og rödd hans var eins og þruma. „Ó, herra“ stundi konan,“ hvers vegna er refsing þín svo hræðileg ? Léttu þessari byrði, lífinu af okkur, við getum ekki meira.“  

Eins og þýður vindblær hljómaði rödd Drottins: „Bæn þína get ég ekki uppfyllt dóttir, orð mín eru óbreytanleg. En engil vil ég gefa ykkur mönnunum fyrir förunaut í lífinu. Þegar þið eruð að örmagnast, mun hann leggja hönd sína huggandi á hjörtu ykkar, svo að þau fyllist gleði og friði og fullvissu um að sjá ykkar horfnu Paradís aftur. Far þú í friði.“

Konan fór, en hún fór ekki einsömul, með henni fór vonin niður til jarðarinnar.

„Nú er æfintýrið búið, barnið gott, en ég skal segja þér nokkuð. Ég er orðin gömul og ég hef oft og mörgum sinnum fundið hve dýrmæt vonin er. Þegar kolsvartur hamraveggur örvæntingarinnar umkringir okkur á allar hliðar, bendir vonin okkur á að líta hærra og þá megum við eiga víst að sjá blessaða sólina einhversstaðar á lofti og þegar dauðinn slítur ástvinina frá okkur, þá er það vonin, sem segir okkur að við munum sjá þá aftur, og hafi heimurinn svift okkur gleði, þá hjálpar vonin okkur til að eignast þúsund sinnum dýpri og sannari gleði.“

Ég stóð upp, þakkaði ömmu fyrir æfintýrið og fór. Ég sagðist ætla að hugsa betur um það og er að því ennþá.

16.09.2015 20:29

Haustferð eldri borgara í Grafarvogskirkju 15. september 2015

Í kirkjustarfi eldri borgara í Grafarvogskirkju hefur skapast sú hefð að byrja hauststarfið á ferðalagi. Að þessu sinni var ákveðið að fara á nokkra staði á Suðurlandi. Lagt var af stað frá Grafarvogskirkju kl. 10:00 og ekið sem leið lá um Þingvelli og Lyngdalsheiði austur að Laugarvatni þar sem við stönsuðum stutta stund. Því næst var ferðinni heitið í Friðheima þar sem við áttum pantaða móttöku og léttan hádegisverð. Þegar við komum þangað var vel tekið á móti okkur og fengum við góða lýsingu á öllu því merkilega starfi sem þar fer fram. Sömu eigendur hafa rekið staðinn sl. 20 ár og byggt upp stóra nýtískulega gróðrastöð og einnig er þar í boði merkileg hestasýning. Aðallega eru ræktaðir tómatar af nokkrum tegundum og einnig agúrkur. Okkur var gerð grein fyrir ræktunarferlinu sem er mikið flóknara en við höfðum áður látið okkur detta í hug. Veitingasalurinn er í hluta eins gróðurhússins og þar fengum við yndislega tómatsúpu, heimabakað brauð og kaffi á eftir.

Tómatsúpan er alveg sérstaklega góð, enda gerð úr glænýjum tómötum og enginn efast um heimabökuð brauð. Þau eru alltaf eins góð og ylmurinn segir til um. Þar sem okkur fannst maturinn alveg sérstaklega góður fengum við kokkinn til að gefa okkur uppskrift bæði af súpunni og brauðinu.

Uppskriftin er þannig: 

Pottur af nýjum tómötum með skinni og öllu, smá grænmetiskraftur,Cayenne pipar á hnífsoddi, vatn.

Vatnið látið fljóta yfir tómatana og soðið við vægan hita í c.a. 30 mín. eða þar til þeir eru mjúkir og að lokum maukað með töfrasprota. Borið fram með nýju brauði smjöri og þeyttum rjóma. Hægt er að bragðbæta súpuna með Mangó eða Mangó cutney þá verður hún dálítið sætari.

Brauðið: 2 kg. Hveiti, 1,5 matsk. þurrger, 1.5 matsk. sykur, 1.5 tsk. salt, ca. 1 l. volgt vatn.

Deigið er hnoðað vel saman og látið hefa sig. Síðan er það hlutað í mátulega stóra brauðhleifa. Gott er að strá yfir deigið mismunandi tegundum af fræjum, osti eða kanelsykri. Látið hefast aftur og bakað við 210 gr.

Að lokinni þessari góðu heimsókn í Friðheima fórum við að Geysi í Haukadal, áttum þar stutta dvöl og síðan var ekið sem leið lá í Skálholt.

Í Skálholtsskóla var tekið einstaklega vel á móti okkur og þar var boðið upp á kaffiveitingar af glæsilegu hlaðborði. Sr. Halldór Reynisson gekk með hópnum um skólann og sagði um leið frá starfseminni þar sem er mjög fjölbreytt. Einnig fór hann með okkur í Þorláksbúð og sagði frá uppbyggingunni þar.

Að lokum fór hann með okkur í Skálholtskirkju, sagði frá kirkjunni og því helsta sem þar ber fyrir augu og áttum við góða stund saman á þessum helga stað.

Hópurinn kom heim í Grafarvogskirkju um kl. 18:00 og voru allir ánægðir með góða dagsferð í yndislegu veðri, sól og heiðríkju.

Samantekt, Valgerður Gísladóttir.

01.05.2015 20:16

Brot úr sögu Hjálpræðishersins á íslandi

Brot úr sögu Hjálpræðishersins á Íslandi.
Valgerður Gísladóttir höfundur

Hjálpræðisherinn á Íslandi var stofnaður í maí 1895 og fagnar því 120 ára afmæli um þessar mundir.

Hvers vegna var hann stofnaður og hvaða erindi átti hann til fólks á Íslandi ?
Stofnendur Hjálpræðishersins voru ensk hjón, Catherine og William Boot. William varð fyrir sterkum trúaráhrifum, þegar hann var unglingur, og þá ákvað hann að helga líf sitt Guði og vinna að sáluhjálp annara. Hann fór að predika hvar sem mögulegt var og sjálfur sagði hann: „Endurfæðingin gerði mig á svipstundu að boðbera fagnaðarerindisins.“
Og nú byrjaði að miklu leyti lífsstarf hans, sem gerði nafn hans ódauðlegt og skipaði honum á bekk með hinum langfremstu hetjum kristninnar.
Árið 1865 fór að myndast fjölmennur söfnuður í East- End þar sem þau hjónin störfuðu. Það var fyrsti Hjálpræðisherinn sem allir aðrir Hjálpræðisherir eru sprottnir upp af. Fljótlega fóru að berast út fréttir af þessum undarlega her, sem hafði aðeins eitt vopn, trúna á Guð og frelsarann Jesú Krist.

Markmið Hjálpræðishersins var fyrst og fremst að vekja trú þar sem áður var engin trú. Allir meðlimir Hjálpræðishersins játuðu sig frelsaða frá sekt og valdi syndarinnar fyrir kraft Guðs og var gert skiljanlegt að þeim bæri að leitast við að vinna aðra fyrir Jesú Krist.
Á minna en þrem fjórðu hluta aldar náði herinn til nærri hundrað landa og nýlendna. Hann þekkir engan mun á stétt, trúarviðhorfi né lífi manna; hver og einn er bróðir eða systir sem Kristur er dáinn fyrir.

Undir fána hersins eru menn og konur af sérhverjum þjóðflokki og þjóðerni, samtengd í fagnandi liðsveit, sem hefur að einkunnarorðum sínum: „Herinn fyrir Guð, Guð fyrir herinn".
Fyrstu hermennirnir komu til Íslands vorði 1895 og reistu hér fána Hjálpræðishersins. Þessir menn voru adjudant Ericsen danskættaður og Þorsteinn Davíðsson, sem var íslenskur, ættaður úr Húnavatnssýslu. Ekki var þetta fjölmennur her, aðeins tveir menn. Samt vakti koma þeirra strax mikla athygli og fólk var spyrjandi um hvaða erindi slíkur her ætti til Íslands.


Flestir tóku tóku fyrstu hermönnunum  vel og fljótlega eignaðist Hjálpræðisherinn sína fyrstu vini og fylgismenn hér að landi. Þar má nefna t.d. Björn Jónsson, ritstjóra Ísafoldar og Þórhall Bjarnason, ritstjóra Kirkjublaðsins en þeir voru mikilsmetnir menn í þjóðfélaginu á sinni tíð.
Þessir menn skrifuðu margar greinar um störf Hjálðræðishersins og voru í skrifum sínum mjög vinveittir starfinu. Einnig tók Góðtemplarareglan mjög vel á móti Hjálpræðishernum og lánaði þeim húsnæði til að halda samkomur á meðan þeir voru að útvega sér sitt eigið húsnæði.

Fljótlega eftir að þeir félagar komu til Íslands héldu þeir sína fyrstu samkomu og var hún að sjálfsögðu mjög vel sótt þar sem fólki lék forvitni á að vita hvað þeir félagar hefðu fram að færa. Í Ísafold var sagt frá þessari samkomu á eftirfarandi hátt: „Samkoma sú er þeir félagar Ericsen og Þ. Davíðsson yfirliðar í Hjálpræðishernum héldu hér í fyrsta sinn sunnudagskveldið var var heldur en ekki vel sótt: stærsti samkomusalur bæjarins troðfullur, og urðu margir frá að hverfa. Það sem gerðist var, að þeir félagar fluttu lítilsháttar fyrirlestur um „herinn“ báðust fyrir og sungu nokkra sálma úr nýju sálmakveri, er „herinn“ hafði gefið út í Kaupmannahöfn, en annar þeirra lék undir á fíólín við og við.“
Fáir sem engir af áheyrendum munu hafa hneykslast hót á guðsþjónustuathöfn þessari, þótt nýstárleg væri; enda hverjum manni sýnilegur hinn einlægi áhugi þeirra félaga fyrir góðu málefni og alvara með trúna, auk þess sem menn vita hve ágætan orðstýr „herinn hefur getið sér mjög víða um lönd fyrir framkvæmdasama mannást við bágstadda.“

Þannig voru fyrstu ummmælin sem skráð eru um starf Hjálpræðishersins á Íslandi.  Þótt starfsemin byrjaði smátt varð mjög fljótt sýnilegur árangur af starfinu. Fljótlega bættist í herinn og í sumarbyrjun var haldin fyrsta hermannasamkoman, tæplega mánuði eftir að fyrsta almenna samkoma var haldin. Ef til vill mætti spyrja  hvað það var, sem hvatti fólk  til að ganga í Hjálpræðisherinn, sem hafði aðeins starfað á Íslandi í tæpan mánuð. Fólk, sem sótti samkomurnar var þess fullvisst að tilgangurinn með starfinu væri hreinn og góður og ekki af neinum eigingjörnum rótum runninn. Þess vegna fannst mörgum svo auðvelt að gera markmið Hjálpræðishersins að sínum. Að eignast frelsi fyrir trúna á Jesú Krist og boða öðrum trúna svo að fleiri mættu eignast það sama.
Margar frásagnir eru skráðar af fyrstu hermönnunum á Íslandi og sýna þær hve mikilvægt starf Hjálpræðishersins var strax í upphafi.

Hér er ein grein sem birt var Ísafold:  Auðbjörgu Jónsdóttur þekkja allflestir Reykvíkingar. Margs konar mótlæti og sorgir hafa henni að höndum borið á lífsleiðinni; en bjargföst trú á Guð hefur haldið henni uppi. Á morgni eilífðarinnar kemur það fyrst í ljós, hvað hún hefur afrekað fyrir Guð – hve mörgum sálum hún hefur orðið að liði, meðal annars með hinum mörgu þúsundum af Herópinu, sem hún á liðnum árum hefur flutt heimilum, ríkum og fátækum.

Þessi frásögn er dæmi um konu, sem snemma gerðist liðsmaður í Hjálpræðishernum og þrátt fyrir margs konar erfiðleika og mótlæti gafst hún  ekki upp, heldur stóð föst á bjargi trúarinnar, sem hún hafði eignast. Til eru mörg dæmi svipuð þessu um fólk sem hafði eignast trú, sem gerði því mögulegt að standast hvers konar raunir og mótlæti, sem áður hafði virst ómögulegt að sigrast á. Á þessa leið eru allar greinar, sem fyrstu hermennirnir skrifa svo áreiðanlegt er, að Hjálpræðisherinn hefur átt erindi til margra.

Haustið 1895 eignaðist Hjálpræðisherinn fyrsta húsnæði sitt á Íslandi, en það var Hótel Reykjavík við Kirkjustræti.
Eins og nærri má geta var þetta mikill sigur þar sem ekki hafði verið mögulegt að hafa reglulegar samkomur eða aðra starfsemi áður. Nú hófst skipulagt samkomuhald og var það bæði ætlað fullorðnum og börnum, en barnastarf hefur alltaf verið stór þáttur í starfi Hjálðræðishersins.

Förum nú í huga okkar aftur í tímann og hugsum um Reykjavík á jólunum 1895 og sjáum hvað Jón Helgason skrifar í Íslenskt mannlíf IV um jólaskemmtun á Hjálpræðishernum.
 „Meðal lofsverðra áforma þeirra félaga hér er jólagleði handa 100 fátækum börnum, núna milli jóla og nýjárs: góð máltíð, jólatré og jólagjafir, ekki glingur, heldur almennileg flík handa hverju barni, aflað sumpart með því að sauma upp brúkuð föt af fullorðnum, sem gera má ráð fyrir að ýmsir bæjarmenn muni vilja með fúsu geði hjálpa þeim um miklu heldur en láta ónýtast. Slíkt kemur vissulega í góðar þarfir með þessu móti. Nóg er fátæktin og bágindin, ekki síst er sjórinn bregst eins og nú er „
Hér líkur þessari frásögn en við getum gert okkur í hugarlund hve kærkomin þessi skemmtun hefur verið börnunum sem voru boðin þangað, enda sjálfsagt ekki vön mikilli tilbreytingu. Hitt er líka áreiðanlegt að vinnan að baki slíkri skemmtun hefur krafist mikillar fórnfýsi af hendi hermannanna.

Það var nú samt svo, að þrátt fyrir að margir væru glaðir og þakklátir yfir komu Hjálpræðishersins til Íslands voru þeir líka margir, sem gerðu gys að honum og lögðu jafnvel til að hann yrði rekinn úr landi.

Stuðningur nokkurra frammámanna í þjóðfélaginu var því afar mikilvægur og svo dæmi sé tekið þá tók Þórhallur Bjarnason  viðtöl við nokkra einstaklinga sem höfðu haft einhver kynni af Hjálpræðishernum og birti í Kirkjublaðinu og voru þær allar á einn veg, fullar af þakklæti og gleði yfir starfsemi „hersins“.

Í ummælum sínum eftir viðtölin segir Þórhallur meðal annars:
„Það þarf almenningur að skilja, jafnt æðri sem lægri, að góðar eru aura - og matargjafir til bágstaddra, hvaðan sem þær koma, en allra bestar eru þó gjafir hvers og eins af sjálfum sér, samkenningargjöf hjartans, hlutttakan, viðmótið og orðið, lyftingin til hressingar og hagsbótar. Þar dugar ekkert nema persónulegu afskiftin.“
Í lok greinarinnar segir Þórhallur: „Hafi Hjálpræðisherinn með öllum sínum vankönntum sæll komið til þessa lands, allra mest fyrir það, að hann er lifandi minning þess, að Guðs ríki er þó fyrst og fremst sjálfsafneitandi líf á kærleiksvegi Krists, ofar orðasvælunni og öllum vatnaskilum tvístraðra trúflokka.“ Hér líkur þessari tilvitnun í skrif Þórhallar.

Á þessum tíma var ekki til neitt sem hét félagsþjónusta af neinu tagi og því var umhyggjan og kærleikurinn sem fólkið fann hjá „hernum“ afar kærkominn.
Fljótlega eftir að Hjálpræðisherinn var kominn í sitt eigið húsnæði var hafinn þar rekstur gistiheimilis. Þannig var hægt að afla nokkurra tekna til starfsins sem fór örtvaxandi og einnig var þá hægt að ná með boðskapinn til fólks utan af landi. Starfsemin var að vísu smá í byrjun en eftir því sem fjölgaði í hernum var hægt að hefja störf víðar og efla allt starfið mjög.  Um langt árabil var starfandi Dorkassamband, en það var kvennaflokkur, sem kom saman til að vinna að einhverjum ákveðnum verkefnum, t.d. var þar saumað mikið af fatnaði upp úr gömlum fötum og honum dreift til bágstaddra. Einnig hefur heimilasamband kvenna í Hjálpræðishernum verið starfrækt nánast frá upphafi og er það starfandi ennþá. Þar koma konurnar reglulega saman, eiga saman helgistund og geta síðan miðlað hver annari af trúarreynslu sinni. Þótt allar aðstæður séu mikið breyttar í þjóðfélaginu frá fyrstu árunum er samt ennþá mikil þörf fyrir slíkt félag.

Eftir því sem starfsemi Hjálpræðishersins jókst voru þeir líka fleiri, sem kynntust hernum á einhvern hátt og brátt kom að því, að þeir, sem mest höfðu haft á móti honum í upphafi, fóru að hafa hægar um sig og hvers konar ólæti og uppþot á samkomum hættu smám saman.
Herópið er aðalmálgagn Hjálpræðishersins og kom það fyrst út á Íslandi í október 1895. Ísland var þar með 28. landið sem Herópið var gefið út á.
Starfsemi hófst á Ísafirði haustið 1896, en á Akureyri hófst regluleg starfsemi vorið 1904. Áður höfðu þó fáeinir hermenn heimsótt Akureyri og dvalið þar skamman tíma.
Aðalstöðvar Hjálpræðishersins hafa alltaf verið í Reykjavík.

Í Reykjavík og á  Akureyri er ennþá rekið öflugt starf og einnig í Reykjanesbæ þar sem starfsemi hófst fyrir fáeinum árum.  Áður var starfsemi á Ísafirði, Seyðisfirði, Siglufirði og tímabundið á nokkrum öðrum stöðum.  Áður fyrr voru útisamkomur haldnar reglulega en vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu  hafa þær að mestu verið aflagðar.
Í dag er Hjálpræðisherinn rótgróinn í þjóðfélagi okkar og á nú eins og alltaf áður sína trúföstu og góðu vini og fylgismenn um allt land. Í Reykjavík eru samkomurnar eins og áður og auk þess er rekur herinn öflugt hjálparstarf bæði í húsnæði hersins í Mjóddinni, á vistheimilinu Bjargi á Seltjarnarnesi og á Eyjaslóð þar sem þeir í okkar hópi sem minnst mega sín eiga öruggt skjól.

Í öllum herbúðum Hjálpræðishersins er trúboð aðalatriðið. Á öllum samkomum er bænabekkurinn á sínum stað og þar er öllum boðið að krjúpa og biðja til Guðs.
Ennþá sjáum við fólk úr Hjálpræðishernum vitja sjúkra og bágstaddra og margir eiga eina skjólið sitt hjá fólkinu í Hjálpræðishernum.
Allt þetta starf er unnið í þeirri fullvissu, að frelsarinn Jesú Kristur dó á krossi til að leysa okkur mennina undan böli syndarinnar og sérhver sál, sem frelsast, eignast eilíft líf fyrir hann. Þessi fullvissa er bjargið sem Hjálpræðisherinn er byggður á, og orð Jesú sjálfs:
„Hver sá sem vill bjarga lífi sínu , mun týna því, en hver sá, sem týnir lífi sínu mín vegna, hann mun finna það.“ Þessi orð taka allir hermenn Hjálpræðishersins bókstafslega og lifa eftir þeim.

 

Þetta er aðeins lítil frásögn af því mikla og ómetanlega starfi sem Hjálpræðisherinn hefur unnið og er að vinna í íslensku þjóðfélagi enn í dag.
Mætti það vera bæn okkar allra að Hjálpræðisherinn starfi áfram í landinu okkar um ókomin ár, Guði til dýrðar og okkur öllum til blessunar og góðs.

 

07.01.2015 23:02

Áramótaguðsþjónusta Eldriborgararáðs

Áramótaguðsþjónusta Eldriborgararáðs verður haldin í Laugarneskirkju fimmtudaginn 15. janúar kl. 14:00.

 

Guðrún Ásmundsdóttir leikkona flytur hugleiðingu.

Séra Kristín Þórunn Tómasdóttir sóknarprestur og Guðrún Kr. Þórsdóttir djákni þjóna fyrir altari.

Tónlistarstjóri verður Arngerður María Árnadóttir.

Eftir guðsþjónustuna verður boðið upp á veitingar í safnaðarheimili kirkjunnar.

Allir eru innilega velkomnir og takið með ykkur gesti.

Messan er samstarfsverkefni Eldriborgararáðs Reykjavíkurprófastdæma og Laugarneskirkju.

12.10.2014 20:39

Hausthátíð í Grafarvogskirkju

Hausthátíð í Grafarvogskirkju 30. september 2014.

Við í kirkjustarfi eldri borgara héldum hausthátíð til að fagna því að starfið er hafið á ný.
Við erum e.t.v ekki alltaf að gleðjast yfir haustinu. Við sjáum fyrir okkur að skammdegið er skammt undan og  því fylgir oft kuldi og ófærð sem gerir mörgum erfitt fyrir með að komastá milli staða. 
En minnug þess að allar árstíðir hafa eitthvað sérstakt að bjóða þá buðum við haustið velkomið með dálítilli hátíð.

Hátíðin hófst kl. 12:00 með söng og léttu spjalli. Hilmar Örn Agnarsson organisti stjórnaði fjöldasöng og sungin voru létt lög sem allir kunna. Hádegisverðurinn var kjötsúpa sem konurnar í starfinu höfðu útbúið og eldað. Henni voru gerð góð skil eins og venja er þegar íslensk kjötsúpa er borin fram. Á eftir var boðið upp á kaffi og nammi.
Þegar allir voru búnir að borða nægju sína fórum við í kirkjuna og þar var helgistund samkvæmt venju og að henni lokinni hófst venjuleg dagskrá föndur, spil og spjall.
Í kaffitímanum var boðið upp á kaffi og rjómavöfflur.

Viðstaddir létu í ljós mikla ánægju með þennan dag og sýnir það okkur sem vinnum í þessu sarfi að það þarf oft ekki að fara langt eða gera eitthvað stórt og kostnaðarsamt til að breyta út af venjulegri dagaskrá í starfinu.

Þess skal getið til að magntölur fyrir svona matarinnkaup eru hér á Gamla Nóa og miðast við að 70 – 75 manns séu skráðir í mat.

Nánari upplýsingar er einnig hægt að fá hjá Valgerði. s. 862-0687
eða á netfangi,  logafold20@gmail.com

12.10.2014 20:35

Haustferð kirkjustarfs eldri borgara í Grafarvogskirkju.

Nú er haustið gengið í garð og starfið í kirkjunum er víðast hvar hafið.

Í Grafarvogskirkju hófst starfið á því að fara í ferðalag og að þessu sinni fórum við 40 manns til Vestmannaeyja þriðjudaginn 16. september.
Lagt var af stað frá Grafarvogskirkju kl. 07:30  og ekið austur í Landeyjahöfn og síðan var siglt til Vestmannaeyja kl. 10:00. Veður var mjög gott, logn og  bjart svo við nutum þess mjög að sigla þess stuttu leið yfir til Vestmannaeyja.

Dagskráin í Vestmannaeyjum hófst á því að við fórum í Landakirkju þar sem sr. Kristján Björnsson sóknarprestur tók á móti okkur. Hann sagði okkur sögu Landakirkju á mjög skemmtilegan og áhrifaríkan hátt og við skoðuðum kirkjuna sem er mjög falleg og einnig fjölda fagurra gripa sem prýða hana. Því næst fór sr. Krisján með okkur í Stafkirkjuna sem Normenn gáfu okkur á lýðveldisárinu 2000. Kirkjan er byggð í gömlum stíl eins og kirkjur voru fyrr á öldum

Eftir þessar kirkjuheimsóknir fórum við í hádegismat á veitingastað sem heitir “Einsi kaldi” og þar var snæddur hádegisverður.
Á dagskrá eftir hádegi var að fara í Eldheima sem er nýtt safn um eldgosið á Heimaey. Þetta nýja safn er án efa eitt merkilegasta safn sem hægt er að skoða og var okkur öllum mjög hugsað til þeirra sem bjuggu í Vestmannaeyjum og tókust á við þessa skelfilegu atburði á sínum tíma.
Það er mjög sérstakt að svo miklar og nákvæmar upplýsingar um eldgosið og afleiðingar þess skuli vera varðveittar á svona glæsilegan hátt sem þarna er gert.
Mjög gott aðgengi er að safninu og allir fá heyrnatól sem leiða okkur um safnið svo hver og einn getur farið á sínum hraða og notið þess sem er að sjá og heyra.
Að lokum fengum við Geir Jón Þórisson f.v.lögregluvarðstjóra til að fara með okkur í útsýnisferð um Heimaey. Hann fór með okkur á alla helstu staði sem ferðafólk langar að sjá. Við fórum um nýja hraunið, ókum upp í Stórhöfða og um allan bæinn svo nokkuð sé nefnt og á þessari yfirferð sagði hann okkur á sinn skemmtilega hátt frá því sem fyrir augun bar.

Eftir þennan skemmtilega dag fórum við heim með síðdegisskipinu kl. 17:30 og  heim í Grafarvogskirkju komum við þreytt en ákaflega ánægð klukkan 20:00.

12.10.2014 20:23

Innkaupalisti fyrir kjötsúpu

 

6 pokar Bónusbrauð ( 15 stk í poka)
2 stórir pk gulrætur í sneiðum (2.5 kg x 2 frosið)

   

8,5 kg gulrófur
2 stórar púrrur
4 kg hvítkál
3 kg forsoðnarkartöflur (litlar)
1 pk. hrísgrjón  (ca. 2 bollar fara í súpuna)
1-2 pk Knorr Nautakraftur ( kryddað eftir smekk)
4 pk súpujurtir
1 pk. sjávarsalt ( saltað eftir smekk)
2,5 kg laukur
1 gl. hvítur pipar ( 1-2 tesk. fara í súpuna)
1 kassi smjör (15gr.)

6 pk. Hraunbitar  ( skera hver bita í tvennt )

10 – 11 kg lambagúllas úr framparti
(Esja - Gæðafæði )

Þetta er nægilegt magn fyrir 70 – 75 manns.

 

12.10.2014 20:15

Hugmyndir að haust og vorferðalögum í kirkjustarfi eldri borgara.

Dagsferð til Vestmannaeyja.

Skipið fer frá Landeyjahöfn kl. 10:00 f.h. og hægt er að taka ferðina kl 17:30 til baka í Landeyjahöfn. Þeir sem fara í svona ferð frá kirkjunum Reykjavík og nágrenni þurfa að láta rútuna sem þeir eru með, leggja af stað um kl. 07:30.
Það sem flestir skoða í Vestmannaeyjum er: Landakirkja og  Stafkirkjan. Gott er að hafa samband við prestana á staðnum og fá þá til að taka á móti hópnum.
Eldheimar er nýtt mjög glæsilegt safn sem sýnir á áhrifaríkann og lifandi hátt mynjar og myndir frá eldgosinu á Heimaey. Einnig er mjög gaman að fara í útsýnisferð um eyjuna og þá er gott að fá einhvern innfæddan til að vera með í för og segja frá því sem fyrir augun ber.
Nokkrar ferðaþjónustur eru starfandi og þær hafa fólk á sínum vegum sem tekur svona leiðsögn að sér. Fjölmargir veitingastaðir eru með góðan mat og auðvelt að semja við þá fyrir hópinn.

Grindavík.

Í Grindavík eru nokkrir áhugaverðir staðir sem gaman er að heimsækja.
Kirkjan er mjög falleg og þar tekur presturinn á móti hópum ef óskað er eftir því.
Útgerðarfyrirtækið Stakkavík tekur á móti hópum á mjög skemmtilegan hátt.
Fyrst er farið með fólkið á svalir á efri hæð vinnsluhússins og sagt frá vinnslunni um leið og horft er á fólkið sem er þar að störfum.
Á eftir er boðið uppá hressingu í mótttökusal og þar er sagt frá fyrirtækinu og uppbygginu þess og einnig sýnd mynd úr einni veiðiferð. Hægt er að panta mat fyrir hópa gegn vægu verði.
Einnig er Saltfisksetrið í Grindavík mjög skemmtilegt og þar eru margar gamlar myndir sem eldra fólk kannast við frá sínum yngri árum.
Nokkrir góðir veitingastaðir bjóða mat gegn vægu verði.

Hellisheiðarvirkjun.

Margir hafa mjög gaman af að skoða nýjar virkjanir og þá er tilvalið að heimsækja Hellisheiðarvirkjun. Nauðsynlegt er að hafa samband við starfsfólið þar til að fá staðarskoðun og á eftir er tilvalið að fara á einhvern góðan stað t.d. er Tryggvaskáli með góðan mat og kaffi
sem hægt er að panta fyrir hópa. Þannig er hægt að fá góða tilbreytingu og skemmtun sem tekur u.þ.b. 4-6 tíma.

Karmelklaustrið í Hafnarfirði.

Það er mjög gaman að heimsækja Karmelnunnurnar og fá þær til að taka á móti hópnum í kapellunni. Einnig er hægt að kaupa kaffi hjá þeim en þess ber þó að geta að þá þarf fólk að fara upp brattan stiga sem mörgum er erfitt eða ómögulegt. Verslunin þeirra er opin á daginn svo fólk getur skoðað það sem er í boði og verslað ef óskað er.
Svona ferð er tilvalin á aðventunni og þá er gott að lengja  hana með því að keyra um höfuðborgarsvæðið og skoða jólaljósin. Þá er gaman að enda á kaffihúsi eða jólakaffi í sínu eigin safnaðarheimili.

 

19.09.2014 21:56

Haustguðsþjónusta Ellimálaráðs

Haustguðsþjónusta Ellimálaráðs verður haldin í Bústaðakirkju miðvikudaginn 24. september kl. 14:00

Hólmfríður Ólafsdóttir djákni í Bústaðakirkju predikar.
Séra Pálmi Matthíasson sóknarprestur þjónar fyrir altari.

Lögreglukórinn syngur og leiðir almennan safnaðarsöng.
Stjórnandi kórsins er Tómas Guðni Eggertsson.
Organisti er Jónas Þórir.

Eftir messuna eru kaffiveitingar í safnaðarheimili kirkjunnar.
Eldri borgarar eru hvattir til þátttöku og að taka með sér gesti.
Allir eru innilega velkomnir.

Messan er samstarfsverkefni Ellimálaráðs Reykjavíkurprófastdæma og Bústaðakirkju og markar hún upphaf vetrarstarfs eldri borgara í prófastdæmunum.

25.07.2014 00:00

Hvað er lífið ?

 

Úti í skóginum var sól og sumar. Fuglarnir flögruðu syngjandi milli trjágreinanna. En svo urðu þeir þreyttir og settust niður til að hvíla sig. Það ríkti þögn í skóginum.

Skyndilega var hún rofin.

Ofurlítill söngfugl spurði spekingslega: “Hvað er lífið eiginlega?”  Svolítill lævirki svaraði: “Lífið er söngur”. “Nei það er orusta í myrkrinu”, sagði moldvarpan, því að hún rak einmitt höfuðið upp úr moldinni í sama bili.
“Ég held að lífið sé þróun”,  sagði rósin. Hún breiddi út blöð sín í sólskininu.
Fiðrildi kom fljúgandi, kyssti blöð hennar og hrópaði: “Lífið er eilíf gleði”.
“Stutt sumar er réttnefni”, suðaði flugan. Hún flaug önnum kafin framhjá.
“Lífið er einungis slit og strit”, suðaði mauraflugan. Hún lagði af stað með strá, sem var mikið lengra en hún sjálf.
Ský dró fyrir sólu og það tók að rigna. Þá var eins og hvíslað væri hægt og þunglega: “Lífið er aðeins tár”.
“Ekkert yðar segir satt. Lífið er frelsi og kraftur”. Það var örninn, sem kallaði þetta. Hann klauf loftið með sterkum hátignarlegum vængjatökum.


Vísindamaður nokkur slökkti ljósið á lampanum í rannsóknarstofu sinni og andvarpaði um leið: ”Lífið er sífelldur skóli”.
 


Eftir götu í stórborginni gengu tveir ungir menn. Þeir voru á leið heim til sín. Nóttinni höfðu þeir eytt í svalli og munaði. Annar þeirra stundi: “Lífið er aðeins ein óuppfyllt ósk”. Austanblærinn, sem boðaði komu morgunsins, hvíslaði hljóðlega: “Lífið er ævarandi leyndardómur”.
Þá sveipaðist loftið í austri logarauðum bjarma. skýin og trjátopparnir lauguðust gylltu geislaflóði. Og þegar sólin heilsaði hinni vaknandi jörð, þá hljómaði í fullkomnu samræmi: “Lífið er aðeins upphaf”.


Fyrir Nítján öldum var uppi maður, meiri en flestir aðrir, Páll postuli. Á nafn hans hefur brugðið ljóma frá Heilagri Ritningu. Í stríði lífsins og hvíldarlausri starfsemi ferðaðist hann land úr landi, og var að síðustu varpað í fangelsi.
Í fangelsinu ritaði hann: ”Lífið er mér Kristur”.


Jesús sagði: “En í því er hið eilífa líf fólgið, að þeir þekki þig, hinn eina sanna Guð,
og þann sem þú sendir Jesúm Krist”.    Jóh. 17. 3.

 

07.04.2014 22:02

Föstuguðsþjónusta 10. apríl

Föstuguðsþjónusta Ellimálaráðs verður haldin í Lindakirkju í Kópavogi fimmtudaginn 10. apríl kl. 13:00

Séra  Guðmundur Karl Brynjarsson predikar og þjónar fyrir altari ásamt Þóreyju Dögg Jónsdóttur djákna og framkvæmdastjóra Ellimálaráðs.

Tónlistarfólk úr Lindakirkju leiðir almennan safnaðarsöng undir stjórn Óskars Einarssonar.

Eftir guðsþjónustuna er boðið upp á kaffiveitingar.
Allir eru innilega velkomnir.

Messan er samstarfsverkefni
Ellimálaráðs Reykjavíkurprófastdæma og Lindakirkju.

07.03.2014 20:22

Gamlinginn

Tónleikar í Lindarkirkju 12 mars klukkan 20 til styrktar Orlofsdvöl Aldraðra

 

04.03.2014 20:04

Vinaheimsóknir kirkjunnar

Námskeið:
    
Vinaheimsóknir kirkjunnar

Fimmtudaginn 6. mars kl 17:30-19
Námskeiðið er fyrir þá sem hafa áhuga á að gerast heimsóknarvinir og þá sem halda utan um heimsóknarvinina.
Námskeiðið er samstarfsverkefni Ellimálaráðs og Biskupsstofu.
Léttar veitingar í boði.
Enginn aðgangseyrir.
Skráning í síma 567-4810 eða á ellimal@simnet.is


Umsjón fræðslu:
Þórey Dögg Jónsdóttir, djákni og framkvæmdastjóri Ellimálaráðs
Ragnhildur Ásgeirsdóttir, djákni og verkefnastjóri kærleiksþjónustu
Hólmfríður Ólafsdóttir, djákni
Ólöf Margrét Snorradóttir, guðfræðingur

Verið velkomin