08.11.2009 23:13

Jólakertið

Í þorpi nokkru í Austurríki bjuggu fyrir margt löngu gamall steinsmiður og kona hans.
Þótt þau hjónin væru fátæk voru þau samt þekkt fyrir gjafmildi sína og örlæti.

Gömlu hjónin höfðu fyrir sið á dimmum vetrarnóttum að setja kerti út í gluggann á húsi sínu til að vísa köldum og þreyttum ferðalöngum leiðina heim til þeirra ef  þeir kynnu að þurfa á hjálp að halda. Um þessar mundir var stríð í Austurríki og margir urðu illa úti vegna átakanna.
Svo undarlega brá við að það var eins og óhöppin og erfiðleikarnir sneiddu fram hjá húsi gamla steinsmiðsins. Nágrannar hans í þorpinu veltu því fyrir sér hverju þetta sætti og einn
þeirra sagði: "Hafið þið ekki tekið eftir því að þau láta alltaf kerti loga í glugganum sínum? Kannski ættum við að gera þetta líka og athuga hvort í því sé fólgin einhver vernd."

Fólkið ákvað að reyna á þetta ráð og um kvöldið logaði ljós í öllum gluggum í þorpinu. Daginn eftir barst sú frétt eins og eldur í sinu um landið að stríðinu væri lokið. og lauk þá fólkið allt upp einum munni um að kertin hefðu reynst sannkölluð friðarljós og síðan þá tíðkast að láta ljós loga á jólanótt í híbýlum manna.