Maðurinn á hraðbrautinni

Eftir Sally Dillon

"Æi nei," hrópaði ég upp í hvæsandi vindinn. "Ég trúi þessu ekki."

Kvöldvaktinni á Mercy sjúkrahúsinu var nýlokið. Ég hafði unnið á annarri deild en ég var vön vegna veikinda starfsfólks. Hafði hlaupið í skarðið fyrir aðra og þjónaði sjúklingum sem ég vissi engin deili á. Það var mannekla vegna inflúensufaraldurs. Allar deildir voru undirmannaðar, því flensan nær sér niðri jafnt á hjúkrunarliði sem sjúklingum.
Við lok vaktarinnar um kvöldið lá einn sjúklinga minna fyrir dauðanum. Hópur ættingja kom á staðinn, ég vann langt fram yfir lögboðinn tíma, til að sinna þessum sjúklingi og hans nánustu. Ég beið þar til nýr vakthópur hafði lokið stofugangi, skrifaði mínar skýrslur og skilaði af mér vaktinni.
Klukkan var orðin 1: 30 þegar ég hélt heim á leið úrvinda af þreytu.
Þegar ég opnaði útidyrnar fékk ég ískaldan gustinn í fangið, beint af Michigan vatninu.
Ég var aðeins klædd þykkri ullarpeysu, þar sem hlýtt var í veðri og sólskin, þegar ég hélt til vinnu um miðjan daginn. Um leið og bíllinn fór í gang heyrði ég í útvarpinu, að frostið væri 12 gráður (C) en kælingin miklu meiri vegna golunnar.
Er ég ók eftir Stevenson hraðbrautinni heyrði ég skyndilega háan hvell, og þar á eftir högg og slátt.
?Ég trúi því ekki,? varð mér að orði, ?sprungið dekk, og það á þessum tíma.?
Ég stöðvaði bílinn úti í kanti og sótti tjakkinn. Pabbi hafði kennt okkur öllum að skipta um dekk, og ég hugsaði til hans með þakklæti. Ég hefði ekki viljað þurfa að leita mér aðstoðar um miðja nótt.
Ég tjakkaði upp bílinn og var að setja varahjólið undir, þegar flutningabíll þaut fram hjá á mikilli ferð. Vindhviðan sem myndaðist við það olli því að bíllinn féll af tjakknum og ofan á varahjólið, og ég með hendina undir.
Ég varð í fyrstu svo reið við ökumanninn tillitslausa, að ég fann ekki fyrir sársauka í hendinni. Ég reyndi, með tárvot augu í kuldagjólunni, að sparka burt varahjólinu, þar til tærnar á mér urðu tilfinningarlausar. Tárin frusu mér á vanga og mynduðu örlítil grýlukerti á nefi og höku. Nú rann mér móður, og ég gerði mér grein fyrir alvarleika stöðu minnar.
Það var nístingskuldi, og ég gat mig hvergi hreyft í þessarri sjálfheldu. Til að bæta gráu ofan á svart var ég stödd í hættulegum borgarhluta.
?Ó Drottinn, hjálpaðu mér,? hrópaði ég meðan vindurinn gnauðaði. ?Þú veist hvað hér hefur gerst. Viltu senda einhvern til hjálpar, sem ekki vinnur mér mein.? Ég gat ávarpað Drottin nokkrum sundurlausum setningum til viðbótar. Hann einn er nálægur á stundum sem þessum.
Skyndilega heyrði ég að það marraði í snjónum. Ég heyrði fótatak. Maður nokkur kom gangandi yfir umferðareyjuna, ávarpaði mig og sagði: ?Þarft þú á hjálp að halda?? Ég kinkaði dauflega kolli. Hann tók þá tjakkinn þar sem hann lá í snjónum, lyfti upp bílnum og losaði af mér varahjólið. Hann vafði teppi, sem hann hélt á um mig og kom varahjólinu undir bílinn.

?Ég skal keyra þig á sjúkrahúsið, því þú ert handarbrotin,? sagði hann. ?Nei þakka þér fyrir,? sagði ég, og fann að ofsahræðslan kom yfir mig að nýju. ?Ég held ég geti keyrt sjálf.?
Hann brosti og sagði skilningsríkur: ?Láttu manninn þinn keyra þig á slysavarðstofuna strax og þú kemur heim, því þú ert handarbrotin.?
?Já, ég geri það,? sagði ég um leið og ég skilaði honum teppinu. Ég sneri mér við til að þakka honum aðstoðina, en þá var hann horfinn. Ég fór út úr bílnum og hringinn í kringum hann, en varð mannsins ekki vör. Engin spor var að sjá í snjónum, þar sem hann hafði gengið yfir umferðareyjuna.
Ég stökk upp í bílinn aftur. Hugurinn bar mig hálfa leið, en það var erfitt að skipta um gíra, handarbrotin.
Hver var þessi ókunni maður? Hann hafði boðist til að keyra mig á sjúkrahúsið í mínum eigin bíl. Það var sennilega vegna þess að hann átti engan bíl. Ef til vill hefur hann ekkert þurft á honum að halda. Það var engu líkara en hann væri með eins konar Röntgen ? augu, sem varpað gætu ljósi á það, hvers vegna hann vissi að ég væri handarbrotin og að ég ætti eiginmann heima.
Hver svo sem hann gæti hafa verið, þá þakkaði ég Guði kraftaverk hans á kaldri og dimmri vetrarnóttu á hraðbrautinni.

Frá Vigdísi Jack.