Fimm mínútur í átta

Fimm mínútur í átta


Það var sætur og heillandi ilmur í svefnherberginu . Húsmóðirin á heimilinu sat við snyrtiborðið og var að leggja síðustu hönd á andlitssnyrtingu sína. Frá henni lagði ilminn.
Maðurinn hennar stóð í stofudyrunum og barðist við stífuðu skyrtuna. Langir fótleggir hans voru umvafðir miðnæturbláum smókingbuxum, skyrtan huldi brjóst hans, stálhörð sem brynja. Andlit hans var rjótt og blómlegt, svo sem andlit karlmanna gerast jafnan, er þeir berjast við óstýriláta flibbahnappa.
Hvar eru ermahnapparnair mínir eiginlega? stundi hann með erfiðismunum.
Hún leit rannsakandi á vandlega snyrt andlit sitt í speglinum
Ermahnapparnir þínir? sagði hún hugsi um leið og hún málaði augabrúnina þannig, að hún myndaði fíngerðan boga. -Ermahnapparnir þínir eru í efstu skúffunni til hægri!
Hann hafði loks unnið sigur á á sauðþráum andstæðingi sínum og rétti úr sér sigri hrósandi. Síðan gekk hann að skúffunni og dró hana út.
Hvers vegna læturðu hnappana aldrei á sama stað? spurði hann gremjulega meðan hann leitaði. Hvers vegna læturðu þá ekki vera þar sem ég læt þá, þegar ég hætti að nota þá?
Hún leit snöggt á hann.- Í baðherbergið - eða á bókaskápinn - eða í eldhúsið - eða á einhvern jafnvitlausum stað ? Nei þakka þér fyrir vinur sæll , þeir eiga að vera á sínum stað. Hvað er annars klukkan orðin?
Hann leit á úrið sitt og honum krossbrá. Hana vantar fimm mínútur í átta .- Hamingjan hjálpi okkur! Við verðu alltof sein. Ertu ekki bráðum tilbúin? Hún málaði varirnar vandlega með dökkrauðum varalit.
Eftir augnablik góði minn. Hún lagði frá sér varalitinn og tók greiðuna.
Hann baslaði við ermahnappana í miklu óðagoti, missti annan þeirra og hreytti út úr sér ófögrum orðum. Konan hans var hin rólegasta og brosti samúðarbrosi. Þarna er karlmönnunum rétt lýst hugsaði hún.
Reyndu nú að flýta þér svolítið urraði hann gremjulega.
Hún leit á hann í speglinum. - Blessaður vertu ekki með þessi læti! Við verðum alveg nógu fljót. Missum kannski af forleiknum, en hvað gerir það til? Það er ekkert varið í hann hvort sem er.
Hann snaraði sér í jakkann - Það er einkennilegt, hvæsti hann öskureiður, að kvenfólk skuli aldrei geta verið tilbúið í tæka tíð.
Hún leit á hann rannsakandi. Það er þó miklu einkennilegra, sagði hún þýðlega, næstum ástúðlega, að þú skulir fara í brúna strigaskó við smóking.
Hann leit niður fyrir sig og baðaði út höndunum í örvæntingu.
Hvers vegna í ósköpunum tókstu ekki fram svörtu skóna fyrir mig?
Ég hélt nú að þú værir maður til að gera það sjálfur.
Hvar eru þeir?
Í hornskápnum.
Hvar?
Í hornskápnum.
Ég heyri það, en hvar í hornskápnum?


Neðst til vinstri vinur minn.
Hann hljóp í loftköstum að skápnum og tókst að finna skóna. - Þeir eru rykugir, tautaði hann ergilegur.
Þá skaltu bursta þá! Burstinn er í skúffunni til vinstri.
Hann burstaði skóna eins og hann ætti lífið að leysa ,fokillur og eldrauður út að eyrum. Hann grýtti burstanum inn í skápinn og tróð sér í skóna. Skrambinn sjálfur, þeir eru alltof þröngir, hvernig stendur á þessu ? tautaði hann lágum rómi sármóðgaður.
Tókstu ekki bréfið úr þeim?
Bréfið! Geymirðu bréf í skónum mínum? Hann reif samanbögglaðan blaðapappír upp úr skónum og fór svo í þá aftur.
Ertu þá tilbúinn? Hún leit glaðlega brosandi á vanstillta manninn sinn. Hann kinkaði aðeins kolli.
Viltu hjálpa mér í stuttkápuna mína? Þakka þér kærlega góði minn! Vertu svo vænn og slökktu líka ljósin.
Hann slökkti og hún gekk á undan honum út í anddyrið. Hann fór í frakkann sinn.
Mundirðu eftir miðunum? spurði hún allt í einu.
Hann stirðnaði upp.- Miðunum! Æ, já - þeir eru í hinum fötunum. Ég hleyp inn aftur og næ í þá! Hann hvarf inn í stofuna.
Hún beið við dyrnar. - Ertu ekki að koma? hrópaði hún og var nú orðin óþolinmóð.
Hann kom þjótandi með miðana í hendinni.- Eigum við þá að koma?
Hún opnaði ytri dyrnar.- Já við skulum fara að koma okkur af stað. Allt í einu nam
hann staðar.- Hvaða dagur er í dag? 
Þriðjudagur auðvitað! Komdu nú, við megum ekki vera að þessu! Hún hristi snerilinn gremjulega.
Hann dró djúpt að sér andann.
Okkur liggur ekkert á elskan mín.- Það er á miðvikudag, sem miðarnir gilda!