Biblían í veggnum

Biblían í veggnum

Sannur atburður

Það er sögð merkileg saga frá hinni fögru og sólríku Ítalíu. Appelsínutrén stóðu í blóma og vínviðurinn vafði sig upp eftir fjallshlíðunum. Kona nokkur var á gangi í útjaðri lítils bæjar, sem að miklu leyti var hulinn olívutrjám. Rétt fyrir utan bæinn hitti hún múrara, sem var að hlaða múrvegg.
Konan heilsaði honum vingjarnlega, og hann tók undir kveðju hennar. Þau spjölluðu saman nokkra hríð um alla heima og geima. Loks tók konan ítalska Biblíu upp úr tösku sinni og ætlaði að gefa unga múraranum hana.
Þá kom annar svipur á múrarann. Hann snéri sér með fyrirlitningu frá konunni. Hann kærði sig ekkert um þessa bók. Honum fannst hann ekki hafa neina þörf fyrir hana.
Konan var samt ekki af baki dottin. Hún vann að því að dreifa út Biblíum. Hún lagði svo fast að manninum að þiggja bókina, að hann lét loks til leiðast. Hún skrifaði nafn hans í bókina og fékk honum hana.
En konan tók ekki eftir einkennilegu glotti í augum mannsins, er hann kvaddi hana.
Hún var ekki fyrr komin úr augsýn en múrarinn losaði um nokkra steina í veggnum, stakk Biblíunni þar inn og múraði yfir.
Nú fannst honum bókin vera vel geymd - og nú væri hann laus við konuna. Þessi ótætis bók ætti ekki betra skilið.

Nokkrum árum síðar varð ægilegur jarðskjálfti í þessum bæ. Mörg hús hrundu,börn æptu af skelfingu og stunur særðra manna heyrðust úr öllum áttum. Á nokkrum mínútum gereyðilagðist meira en helmimgur bæjarins.
Fólk flýði bæinn og leitaði óhultra staða. Að nokkrum tíma liðnum hurfu þó allmargir af íbúunum heim aftur og tóku að leita í rústunum.
Dag einn stóð maður nokkur við hálfhruninn vegg og þreifaði fyrir sér hve traustur hann væri. Þá tók hann allt i einu eftir því, að tómahljóð heyrðist í veggnum á einum stað. Honum kom fyrst í hug, að þarna kynni einhver fjársjóður að vera fólginn og tók að brjóta upp vegginn. Það reyndist rétt vera! Þarna var hol í veggnum, og sjá, þarna lá lítil bók.
Maðurinn tók bókina heim með sér og fór að lesa hana. Honum varð ljóst, að þarna hafði mikill fjársjóður verið fólginn. Hann lærði að meta þessa bók, og í gegnum hana lærði hann að þekkja Jesúm.
Afleiðingin varð sú, að maðurinn fór að vinna að útbreiðslu Biblíunnar. Hann hafði fundið frelsara sinn við að lesa bókina, og nú vildi hann vinna að því að dreifa þessum fjársjóði út til landa sinna. En það voru ekki margir,sem vildu kaupa biblíur.
Dag nokkurn kom hann þar að, er hópur verkamanna var að vinna. Hann tók upp bækur sínar og gaf sig á tal við þá.
- Það þýðir ekkert að bjóða mér þessa bók sagði ungur múrari, ég kæri mig ekki neitt um hana. Einu sinni var einni slíkri bók troðið upp á mig, en ég hefi komið henni svo vel fyrir, að ekki einu sinni sá vondi sjálfur getur fundið hana!
Manninum með Biblíuna brá við þessi orð. Honum kom allt í einu í hug hvernig hann hafði fundið hana. Hann opnaði Biblíuna, sem hann hélt á í hendinni, sýndi múraranum og spurði hvort hann kannaðist nokkuð við nafnið, sem skrifað var í hana.
Múrarinn varð skelfingu lostinn.
- Þetta er mitt nafn, hrópaði hann. Hvernig í ósköpunum hefur þú komist yfir þessa bók? Maðurinn skýrði frá með hvaða hætti það hafði orðið, og múrarinn fékk aftur Biblíuna sína. Nú bað hann meira að segja um að mega halda henni.
Hann fór að lesa hana og nú skildi hann, að það var Guð,sem talaði til hans og hafði séð um það, að Biblían, sem hann hafði fyrirlitið, barst aftur í hendur hans á þennan undarlega hátt.
Upp frá þessu varð Biblían kærasti vinur hans.

Ljósberinn l954