Heimilið í Kana


Heimili í Biblíunni

Mörgum heimilum frá dögum Biblíunnar er nokkuð vel lýst. Fróðlegt er að skyggnast um og sjá í hnotskurn anga af daglegu lífi íbúanna. Í þetta sinn er boðið til brúðkaups sem lesa má um nokkuð nákvæmlega í öðrum kafla Jóhannesarguðspjalls, sem ber yfirskriftina ; ?Fyrsta táknið.?

Heimilið í Kana

Hvort brúðkaupsveislan var haldin á heimili brúðarinnar er ekki vitað.
En þar voru vinir heimilisins saman komnir og mikið um að vera. Brúðkaup stóðu þá í 7 daga í Gyðingalandi, og menn gengu út og inn á meðan það stóð.

Móðir Jesú var þar og lærisveinar hans. María er nefnd á undan en síðan segir í Jóh. 2,2: ..?en Jesús var og boðinn til brúðkaupsins og lærisveinar hans.?
Ef til vill var þarna um fjölskyldutengsl að ræða og María því sjálfsögð.
Og ef til vill hittist svo á að Jesús og lærisveinarnir áttu leið um Kana einmitt þessa daga.
Það var siður Gyðinga þegar brúðkaup voru haldin, að fyrir utan fasta gesti bættust gjarnan fleiri við, þar sem húsið stóð opið að austurlenskum sið.
Þeir sem þarna héldu veislu voru ekki andstæðingar spámannsins frá Nasaret, heldur vinir hans ? og þessir gestir, Jesús og lærisveinar hans, gáfu brúðkaupinu sinn sérstaka blæ.
Við þekkjum söguna um þessa veislu. Þar kom að lá við óþægilegri truflun. Nærri lá að vöntun og vandræði skyggðu á veislugleðina.

En á meðal gestanna var ein sem vissi hvert hún átti að leita. Það var mikið lán fyrir heimilið að María var þar og Jesús ásamt lærisveinunum. Hvílík minning hefur það ekki verið að Jesús gerði þarna sitt fyrstsa kraftaverk.
Gjarnan er það svo í hinum svo-kölluðu kristnu löndum, að Jesús er kvaddur um leið og ekið er frá kirkjunni og í veislunni er oftlega slegið á aðra strengi.

Kristið er það heimili þar sem beðið er í Jesú nafni, þar sem hann fær, meðan árin líða og skiptast á skin og skúrir, að breyta vatni í vín í andlegum skilningi.

Úr handriti Agnesar Steinadóttur

Í Biblíuhandbókinni má lesa meira um hjónabandið í köflunum ?Brúðkaup? og?Hjónaband.?
Þar segir meðal annars:

Brúðkaup var stórhátíð í fjölskyldum Ísraelsmanna og hófst með því að brúðguminn, ættingjar og vinir fóru í hátíðlegri skrúðgöngu til heimilis brúðarinnar. Að kvöldlagi voru bornir logandi kyndlar til þess að lýsa leiðina.
Þegar brúðkaupinu var lokið, hélt hátíðin áfram með dýrindis krásum.