Með hljóm í hjarta

 

Til aftansöngs með hljóm í hjarta
nú hljótt ég geng í vetrarkyrrð,
er stjörnur skærar fegurð skarta
og skína bjart úr dökkri firð.

Þegar ég var sóknarprestur á Siglufirði var það venja mín að ganga á aðfangadag jóla til aftansöngs í kirkjunni. Það er ekki löng ganga, en á þeirri leið upplifði ég mörg dýrmæt augnablik, á þessari dýrðarstundu, er hátíðin gengur í garð. Á slíkri göngu varð ljóðið til sem fléttað er inn í þessa hugvekju.
Einn aðfangadagur er mér sérstaklega minnisstæður vegna þeirrar fegurðar sem umhverfið í sköpun Guðs skartaði á þeirri stundu, er ég gekk með gleðihljóm í hjarta til aftansöngs. Það var kyrrð yfir öllu, stillt veður og heiðskír himinn, sem var prýddur logandi stjörnum er tindruðu fagurlega og báru þannig vitni þeirri nóttu sem frelsarinn var í heiminn borinn.
Og rétt eins og ljósblik stjarnanna minntu á það ljós sem fæddist í heiminn á jólanóttin fyrstu, þá barst hljómur kirkjuklukknanna út í vetrarkyrrðina og endurómaði fagnaðarboðskap jólaguðspjallsins um leið og hann kallaði bæjarbúa til helgra tíða.
 

Á jólahátíð ljósin ljóma
og lýsa bjart á hvítri grund.
Um byggðir kirkjuklukkur óma
og klingja milt á helgri stund.

Slík stund er heilög, ekki aðeins meðan hún líður, heldur öðlast hún sess í dýrmætustu fylgsnum hjartans til frambúðar. En á líðandi stundu óskar maður þess helst að hún standi í stað og vari að eilífu.
En þegar maður leiðir svo hugann að því sem gerir slíka stund svo dýrmæta, þá kemur í ljós að innihald hennar og merking er eilíf þrátt fyrir gang tímans.
Hrif hennar er hægt að upplifa í í tíma og umhvefi hans, en þau eru sprottin af öðrum
veruleika, eilífum og kærleiksríkum.
Þess vegna upplifði ég hlýju hið innra á göngu minni, þrátt fyrir biturt frostið;
Einnig fannst mér allt svo bjart og fagurt, þrátt fyrir skammdegismyrkrið. Því ljós heimsins, sem Kristur sendir til okkar í geislum kærleikans, er óendanlega bjart og hrekur burt myrkur og kulda.

Er fönnin hylur foldarblómin
og feldi hvítum sveipar allt,
þá yljar lífi dýrðarljóminn
er leysir sundur myrkrið kalt.

Á þessum tíma vetrarkulda og skammdegis, getum við ef til vill fundið betur en í annan tíma, hve trúin á frelsarann getur fært okkur mikinn yl og mikla birtu.
Og um leið og daginn fer að lengja aftur og sólin hækkar á lofti, þá skynjum við betur í hverju frelsunarverk hans er fólgið.
Hækkandi sól fylgir fyrirheit um vor, sem gefur foldarblómum líf að nýju, eftir að hafa verið kæfð um tíma af kulda og myrkri. Við skynjum og skiljum í trúnni að það líf sem Kristur færir okkur er sterkara en dauðinn, að ljós hans getur hrakið burt myrkrið.
Hann sem er konungur eilífar dýrðar í ríki föðurins, þurfti sjálfur að sætta sig við þá lægingu að fæðast í myrkri og kulda, á meðal þeirra lægst settu í mannlegu samfélagi. En um leið gerði hann heim okkar að helgidómi, sem við fáum að ganga inn í, söfnuð hans á jörðu.

Frá stjörnudýrðar helgidómi
ég Drottinn finn í veröld hér
og þakka hrærðum hjartans rómi
þá helgu gjöf sem veitist mér
.

Drottinn kemur til okkar á jólum. Hann kemur til mín og þín. Frá helgidómi himnaríkis kemur hann inn í heim syndarinnar til þess að frelsa þig og mig. Og á helgri stundu aðfangadags verður stjörnudýrðin að hvelfingu þess helgidóms sem hann býður okkur að ganga inn í af auðmjúkri trú.
Hvernig er hægt annað en upplifa fögnuð hið innra og þakka af hjarta fyrir þá gjöf sem gefin er stærst og mest á jólum,- gjöf sem endist ævina alla og um eilífð. Sú gjöf er heilög eins og stundin, sem ég átti á göngu til aftnsöngs á aðfangadag.
Við hljóm klukknanna gekk ég inn í Siglufjarðarkirkju, til þess að hlýða á orð Guðs, sem varð líf í barninu bjarta, og færir okkur á jólum eilífa blessun. Og í musteri hjartans var á þeirri stundu tekið í strengi klukknanna, svo að ég gæti með hljóm í hjarta flutt Jesú Kristi mitt þakkláta dýrðarlag.

Því fætt er lífsins barnið bjarta
er blessun færir mér í dag.
Í aftansöng með hljóm í hjarta
ég helga því mitt dýrðarlag.

(Ljóðið í hugvekjunni varð til eitt sinn er ég var á leið til
aftansöngs á aðfangadag í Siglufjarðarkirkju)

Bragi J. Ingibergsson, sóknarprestur Víðistaðakirkju, Hafnarfirði.