Saga af steinum


 
Dag einn var sérfræðingur í tímaskipulagningu að tala fyrir framan hóp viðskiptafræðinema. Til að koma meiningu sinni vel til skila, notaði hann sýnikennslu sem nemendur gleyma aldrei. Þar sem hann stóð fyrir framan hóp af metnaðarfullu fólki, sagði hann:

Jæja, þá skulum við hafa próf.

Hann tók upp fimm lítra krukku með víðu og stóru opi og setti hana á borðið fyrir framan sig. Síðan tók hann nokkra hnefastóra steina og kom þeim varfærnislega fyrir í krukkunni einum af öðrum. Þegar krukkan var orðin full og ekki hægt að koma fleiri steinum í hana spurði hann: Er krukkan full?

Allir í bekknum svöruðu játandi

Jæja, sagði sérfræðingurinn, teygði sig undir borðið og tók upp fötu með möl. Hann hellti mölinni í krukkuna og hristi hana um leið. Þannig komst mölin niður í holrúmið á milli stóru steinanna. Þá spurði hann aftur: Er krukkan full?

Nemendur voru ekki vissir, og svöruðu að sennilega væri hún ekki full.

Gott, sagði sérfræðingurinn.Hann teygði sig aftur undir borðið, tók upp fötu af sandi og hellti sandinum í krukkuna. Sandurinn rann í öll holrými sem eftir voru milli steinanna og malarinnar. Og enn spurði hann: Er krukkan full?

Nei kölluðu nemarnir.

Gott. Nú tók sérfræðingurinn könnu af vatni og hellti í krukkuna þar til hún varð alveg full.

Svo leit hann yfir bekkinn og spurði: Hver er tilgangur þessarrar sýnikennslu?

Einn uppveðraður nemandi rétti upp höndina og svaraði: Það er einfalt mál. Sama er hve þéttskipuð dagskráin er hjá þér, þú getur alltaf bætt meiru á þig, ef þú vilt.

Nei, svaraði sérfræðingurinn. Málið snýst ekki um það.
Sannleikurinn sem dæmið kennir okkur er þessi: Ef þú setur ekki stóru steinana fyrst, kemur þú þeim aldrei fyrir.

Spurningin er: Hverjir eru stóru steinarnir í lífi þínu? - Börnin þín.....Maki þinn....Fólkið sem þú elskar...Heilsa þín...Verðug málefni o.s.frv...

Mundu að setja stóru steinana fyrst, eða þú kemur þeim aldrei fyrir.
Ef þú veltir þér upp úr smáu hlutunum fyrst (mölinni, sandinum, vatninu), fyllirðu líf þitt af því sem í raun ekki skiptir máli. Þú munt aldrei finna þann tíma
sem þú þarft að eyða í það mikilvægasta í lífinu (stóru steinana).

Þegar þú hugsar um þessa stuttu sögu í kvöld eða fyrramálið spurðu þá sjálfan þig þessarrar spurningar:

Hverjir eru stóru steinarnir í lífi mínu?

Spurningin gefur tilefni til margvíslegra heilabrota. Í fyrra Péturs bréfi kafla 2, versunum 1 - 8 er frásögnin um Hinn lifandi stein. Það má hugsa sér, að einn af hinum hnefastóru steinum sé stærstur og tákni sjálfan Krist. Hinir tákni manninn. Mölin: alla vonsku, pretti,o.s.frv...Sandurinn: hræsni, öfund, baktal, róg.......
Vatnið: sljóleika, hugsunarleysi, eða eins og máltækið segir: fljóta sofandi að feigðarósi. Hella má vatni, sandi og möl gegnum misjafnlega gróf sigti. Þá standa steinarnir eftir með Krist í fararbroddi. Hégóminn og aukaatriðin eru á brottu.
Þá er gott að líta á 10 versið.
Marga fleiri staði má benda á til íhugunar: Postulasagan 4,11.
Lúkasarguðspjall 20, 17 -18 - og 6, 46 - 49. um bjargið sem byggja má á.
 
Fróðlegt og áhrifaríkt er að fletta bókinni ?Óður steinsins? eftir Ágúst Jónsson trésmíðameistara á Akureyri sem hefur safnað íslenskum steinum, klofið þá í sundur og myndað svo listilega, að halda mætti að í þeim væri fléttuð saga sköpunarinnar.
Kristján skáld frá Djúpalæk hefur ort stórkostlega texta við hverja mynd, og er greinilega undir sterkum áhrifum. Dæmi við mynd nr. 3:
 

Mikill ert þú Drottinn
skapari alls hins skapaða
lof sé þér höfundur lífsins
þannig mælum við börn þín
þekkjum þó aðeins
hið ytra borð hlutanna.
 

Saga af steinum kallar í raun á óhemju djúpa íhugun. Vitna má til orðtækisins: Þegar stórt er spurt verður fátt um svör. En áreiðanlega er hollt og nauðsynlegt að reyna að finna svar við stóru spurningunni, sem snertir hvern einstakling svo áþreifanlega.
 

Mörg eru orðtækin í sambandi við steinana. Mættu steinarnir tala? Nú tekur steininn úr. Ég er steinhissa .....Og svo öll mannanöfnin í málinu okkar. Steinn, Steinunn, Steinólfur, Guðsteinn, Hafsteinn ....
Magnað, og þó ekki, - hve steinninn á djúpar rætur í tilverunni
 

Ég er steinn
á ströndinni
sæbarinn, holóttur
með augu alls staðar
eilítið hrukkóttur
þybbinn og þéttur
gamall og reyndur
-grár steinn -
 

Ég er steinn
glamrandi - tárvotur
kitla ég öldurnar
þær vefja mig örmum
hvítar sem brúðarlín
gjálfrandi, lokkandi
en ég er staðfastur
- grár steinn-

Ég er steinn
þú mátt segja mér
öll leyndarmálin
um sorgina - gleðina -
sæluna vonbrigðin
öllu er óhætt -
ég þegi -
eins og steinn
 

A.S.
Ókunnur höfundur