Köngulóin


 
Í morgunútvarpi 29. október 1999 var lesin frétt í útvarpi er hljóðaði svo:
Kona í Englandi varð fyrir áfalli, er hún leitaði læknis vegna svima og óþæginda í höfði. Í ljós kom, að í eyra henni fannst könguló. Köngulóin var fjarlægð rétt við hljóðhimnu. Ekki er vitað hvort hún hafði verpt eggjum.

Svo mörg voru þau orð og trúlega mun fréttin aldrei verða útskýrð nánar.

Köngulóin er ótrúleg skepna. Margir kannast eflaust við orðatiltækið
?að vera iðin eins og könguló.?

Heimilisblaðið frá 1951 hefur að geyma merkilegar frásagnir af köngulóm í þætti sem kallast ?Í skuggsjánni,? og hefur verið við lýði í blaðinu frá 1912, en þá kemur út fyrsta tölublað og er prentað í Prentsmiðju Suðurlands á Eyrarbakka. Útgefandi er í upphafi Jón Helgason prentari. Hann er enn útgefandi og ábyrgðarmaður 1951, en þá er blaðið prentað í Prentsmiðju Jóns Helgasonar, Bergstaðastræti 27 í Reykjavík.

Hvað segir nú blaðið um köngulærnar?

Sumar húsmæður halda, er þær finna köngulóarvefi í hornum, sem ekki hefur verið þurrkað úr um tíma, að vefirnir hafi myndast af ryki. Það er þó ekki rétt.
Hjátrú þessi er sjálfsagt því að kenna, að köngulóarvefurinn er svo smágerður og hárfínn, að hann er blátt áfram ósýnilegur fyrr en ryk fellur á hann. Vefi þessa spinna litlar köngulær, sem hafast við í húsum inni oig eru ákaflega varar um sig, svo að menn sjá þær mjög sjaldan

Víða um heim telur sveitafólk háttalag köngulónna áreiðanlegustu veðurspána sem völ er á frá nátturunnar hendi. Það fer á fætur snemma á morgnana, til þess að ganga út skugga um, hvað þær hafist að, og af því ræður það, hvernig veðrið muni verða.

Enda þótt köngulær hafi allt frá sex upp í átta augu, sjá þær ótrúlega illa. Sú könguló sem besta hefur sjónina, sér ekki lengra frá sér en þrjá þumlunga. Aðrar sjá ekki nema hálfan þumlung frá sér.

Víða um heim notar fólk köngulóarvef til að stöðva blóðrás. Ef mikið blæðir úr sári og ekki tekst að stöðva blóðrásina, leita bændur að að klöngulóarvef og leggja hann við sárið. Köngulóarvefurinn flýtir fyrir storknun blóðsins.

Margir þekktir vísindamenn og læknar fyrri tíma álitu, að köngulónum fylgdi lækningamáttur. Það eru ekki nema tvö hundruð ár síðan köngulær voru látnar í lítil nisti eða valhnotuskurn, sem síðan voru hengd um háls sjúklinga.
Talið var, að köngulær dygðu sérstaklega vel gegn malaríu. Á miðöldum kom fyrir, að búin voru til köngulóarhálsbönd fyrir sjúklinga. Köngulær voru líka borðaðar. Fyrst voru þær drepnar og svo var þeim annað hvort smurt ofan á brauð eða þær voru borðaðar með ávöxtum Smurt brauð með köngulóaráleggi var talið fyrirtaksmatur handa sjúklingum með hitasótt.

Umferð um götu eina í London var einu sinni stöðvuð, til þess að hleypa könguló óskaddaðri yfir Það skeði við Lambeth-brúna árið 1936.
Lögregluþjónn sá, sem á verði var, tók eftir stórri könguló, sem var að skríða á gangstéttinni, augsýnilega ákveðin í að fara yfir götuna. Þar sem bílaumferð var þá mjög mikil, stöðvaði hinn hjartagóði lögregluþjónn hana. Innan skamms hafði safnast saman stór hópur manna, til þess að horfa á litla dýrið. Þegar köngulóin var komin yfir götuna og horfin, hrópuðu áhorfendur húrra, sem einn maður.
Síðan komst umferðin í eðlilegt horf aftur

Af köngulónni lærðu menn að smíða kafaraklukkur, sem gerðu þeim fært að vinna niðri í vatni. Þá uppfinningu áttu menn vatnsköngulónni að þakka. Hún lifir niðri í vatninu, undir þéttu vefjarþaki, sem líkist fingurbjörg. Þegar hún hefur spunnið sér slíkt hús, syndir hún upp á yfirborð vatnsins og sækir sér loftbólur, sem hún flytur niður í húsið sitt. Smám saman þrýstir loftið öllu vatninu úr húsinu.
Bak köngulóarinnar er alþakið stuttum hárum, og milli þeirra safnar hún loftbólum.

Þegar köngulóin hefur spunnið net sitt svo vel sem henni er unnt milli runna eða blóma, eyðileggur hún það. Hún gerir það á hverjum morgni, enda þótt á hringvefnum sé enginn galli. Hún skilur aðeins eftir umgerðina, sem netið sjálft er spunnið á.
Þar af leiðandi er þessi skordýragildra hennar alltaf ný og hnökralaus.

Vísindamenn nokkrir slógu því föstu í lok síðustu aldar, að köngulær hefðu yndi af tónlist. Náttúrufræðingur einn, sem Boys hét, gerði margvíslegar tilraunir, og hann komst að því, að hljómur tónkvíslarinnar hafði mikil áhrif á köngulóna.
Tónlistarmenn hafa einnig reynt að leika á ýmis hljóðfæri fyrir köngulærnar. Það kom í ljós, að þegar byrjað var að spila, leituðu köngulærnar til þess staðar, þar sem leikið var. Þegar tónarnir dóu út, héldu köngulærnar burt aftur. Vísindamaður einn, sem Dahl heitir, hefur meira að segja haldið því fram, að sum af hárum köngulónna séu í raun og veru eyru.

Þegar ítalskir bændur þurfa á könguló að halda, blása þeir í sérstaka flaututegund.
Flautan gefur frá sér hljóð, sem minnir á flugnasuð. Þar sem köngulóin heldur að flugur séu á næstu grösum, kemur hún fram úr fylgsni sínu og er þá tekin.

Sumar köngulær geta svifiðí loftinu svo hundruðum kílómetra skiptir. Þær klifra upp á einhvern háan stað, til dæmis tré, og spinna svo langan þráð, sem þær láta svífa út í loftið. Þegar þráðurinn er orðinn nógu langur, sleppir köngulóin fótfestu sinni og svífur af stað á þræðinum sínum. Ef hún óskar að hækka flugið, lengir hún þráðinn, og þegar hún vill lenda, dregur hún þráðinn til sín.

Sumar tegundir köngulóa geta gengið á vatni. Þær ganga svo hratt og léttilega á loðnum fótum sínum, að þær ganga ekki niður úr vatnsskorpunni. Ef þær gerðu það,
Mundu köngulærnar sökkva og drukkna.