Örsaga

Það var daginn sem konan fékk myndina undarlegu í póstinum. Umslagið var velkt,frímerkið rifið, ógerlegt að sjá hvaðan það var og nafn hennar skrifað með prentstöfum.- Konan opnaði bréfið og í því var aðeins þessi mynd, sem sýndi framandlega konu með barn á handleggnum.- Hún virti fyrir sér myndina stílfærða og fjarlæga, eitthvað hélt henni fanginni.
Augu konunar horfðu á hana af pappírnum. Hún gaumgæfði myndina um stund, lagí hana frá sér en tók hana síðan upp aftur.- Ekkert var skrifað á bakhliðina, ekki einu sinni merki framleiðanda.- Skrýtið hugsaði konan, hver skyldi hafa sent mér þetta? Einhvers konar jólakort kannski, enda bráðum komin jól, en gleymst að skrifa nokkuð á það.

Furðulegt.

Sjálf var hún vön að kaupa kortapakka af félögum sem söfnuðu fyrir góðum málstað, ekki verra ef þekktir listamenn höfðu séð um gerð kortanna.- Henni þótti lágkúrulegt kortaflóðið í Stórmörkuðunum,og sem betur fór voru vinir hennar sama sinnis,svo hún fékk ekki mikið af slíkum kortum.
Þau voru til dæmis sérlega listræn kortin frá Amnesti International og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna.
Þó henti það stundum þegar hún skrifaði jólakveðjurnar,að henni fannst eitthvað holur í þeim hljómurinn, ópersónulegur,jafnvel staðlaður.
Meðan hún velti þessu fyrir sér gekk hún út að glugganum í vel búinni dagstofu sinni. - það hafði snjóað lítillega og stirndi á götuna. Henni líkaði vel við snjóinn, það var bjartara þá og hreinna, fannst henni.
Hún bjó í grónu hverfi í borginni, þar sem nokkuð var um smekklega uppgerð gömul hús, en einnig eitt og eitt sem óhirðan og umkomuleysið hafði markað sér í fullkomnu tillitsleysi við ríkjandi tísku. Hundgá heyrðist, hurðaskellur, og út úr einu af þessum gömlu hreysum kom lotleg kona með hundkvikindi í bandi.
Konan kannaðist við hana þessa, alltaf með þennan hund með sér og jafnvel stundum drukkin, eða dópuð.- Nú sá hún að sú gamla stefndi að húsinu. Hún ætlar þó ekki hingað, hugsaði konan konan undrandi. Þær höfðu aldrei talast við, þó að fyrir hefði komið, að sú með hundinn hefði boðið góðan dag í hálfkæringi, þegar henni var hlýtt fyrir brjósti. - Slíku hafði konan auðvitað aldrei svarað, og nú var kerlingin að hringja hjá henni dyrabjöllunni.- Hver er þar spurði hún í dyrasímann?
Ég heiti Guðbjörg svaraði rám röddin, ég þarf að tala við þig.
Konan hikaði en fór síðan fram og opnaði dyrnar varlega.
Hún virti nágranna sinn fyrir sér með vanþóknun. Velkt úlpuræksni hékk á grönnum herðunum og skítugir strigaskórnir bættu ekki um. Hundurinn stóð við hlið húsmóður sinnar, einhvers konar bastarður áleit konan. Hvað viltu, spurði hún kalt? Ég vil gefa þér hundinn minn sagði nágrannakonan formálalaust og horfði fast á konuna. Hvað segirðu! ertu drukkin? spurði konan furðu lostin. Nei, svaraði sú ráma, en -hún hikaði aðeins, ég er að fara og get ekki haft hundinn minn þar sem ég verð. Þú ert eitthvað verri, varð konunni að orði. Ég vil ekki sjá þetta hundkvikindi,ég skil ekki hvernig þér dettur þetta í hug! Láttu lóga honum! hún ætlaði að loka hurðinni, en konan með hundinn setti fótinn fyrir.-
Þú sérð ekki eftir því að gera þetta fyrir mig, og ég læt ekki drepa vin minn.- Ja hérna, sagði konan gröm, mér kemur þetta ekkert við og komdu þér burtu. Þær horfðust í augu augnablik, konan hikaði.- Það var eitthvað við augu þessa furðulega nágranna sem kom henni kunnuglega fyrir sjónir. Augun á myndinni! Það var eins og þetta kerlingarræksni hefði sömu augu!
Konan flýtti sér að skella aftur hurðinni og svaraði engu þó að hringt væri nokkrum sinnum. Hún gægðist út um glugga og sá loks hvar sú gamla gekk hægum skrefum burt frá húsinu.
Aldrei hef ég nú vitað annað eins,hugsaði hún. Kerlingin er kolvitlaus! Það ætti að loka þetta fólk inni.
Skömmu fyrir jól sá konan dánartilkynningu þeirrar með hundinn. Henni varð undarlega við, en gleymdi því brátt.
Það var aldrei eins mikið að gera í systrafélaginu sem hún var formaður í, eins og einmitt á þessum árstíma.
Á Þorláksmessu fékk konan bréf. Það var frá dótturdóttur hennar sem dvaldi erlendis. Sæl amma mín, sagði hún. Fékkstu kortið frá mér um daginn? Þú fyrirgefur að ég mátti ekki vera að því að skrifa á það, en ég varð að senda þér eina af þessum helgimyndum, fyrst við vorum nú stödd þarna í Betlehem.- Götusalinn sem seldi mér það, furðufugl með hundræfil hjá sér, staðhæfði að ég ætti að kaupa einmitt þetta kort og kallaði það kort miskunnseminnar, svo að mér fannst það tilvalið fyrir þig, sem starfar svo mikið að góðgerðarmálum. Konan sat með bréfið í fanginu, henni leið eitthvað svo undarlega. Jólalögin ómuðu af geislaspilaranum í flutningi heimsfrægra listamanna. Hún tók ekki eftir því fyrr en henni fannst hún heyra ráma rödd söngla:

Allar mínar sorgir sindra í snjá,
er sólblik af himni fellur hann á.
Ekkert get ég fundið að fela hann í,
ég bið þig, drag fyrir dökklokkað ský.

Allar mínar sorgir sindra í snjá,
er sólblik af himni fellur hann á.
Engum fá þær dulist uns dafnar á ný,
dálítið blóm bak við dökklokkað ský.

Konunni var allri lokið, hún æddi að spilaranum og sló á hvern takkan af öðrum, ums þögn varð.

Kristín Pjetursdóttir.