Glóbrystingurinn

Helgisögn eftir Selmu Lagerlöf


Sagan er frá þeim tíma þegar Drottinn skapaði heiminn, ekki aðeins himin og jörð, heldur öll dýr og jurtir og gaf þeim nöfn. Margar sagnir eru frá þeim tíma. Þekktum við þær allar gætum við skilið allt, einnig það sem við skiljum ekki nú.

Þegar þetta gerðist sat Drottinn og litaði fuglana. Allt í einu var málningin á þrotum, svo að finkan hefði ekki fengið nokkurn lit, ef Drottinn hefði ekki þurrkað af öllum penslunum sínum á fjöðrum hennar. Þá urðu eyru asnans svo löng, af því að hann gat ekki munað nafnið sitt. Þegar hann hafði aðeins gengið nokkur skref yfir engið í Paradís var hann búinn að gleyma nafninu sínu. Þrisvar sinnum kom hann og spurði hvað hann héti. Þá varð Drottinn óþolinmóður, tók í eyru hans og sagði: ?Þú heitir asni, asni, asni." Um leið togaði hann í eyru hans, og þau urðu löng svo að hann ætti auðveldara með að heyra. Sama dag hlaut býflugan hegningu sína. Jafnskjótt og sköpun hennar var lokið fór hún að safna hunangi. Dýr og menn, sem fundu hversu ilmur þess var sætur komu til hennar og óskuðu eftir að bragða á því. En býflugan var eigingjörn og vildi hafa það fyrir sig. Hún rak alla sem komu nálægt vaxköku hennar burtu með eiturbroddi sínum. Drottinn sá þetta og kallaði þegar í stað býfluguna fyrir sig og áminnti hana: ?Ég veitti þér hæfileika til að safna hunangi, því sætasta sem til er, en ég gaf þér ekki leyfi til að vera vond við náunga þinn. Mundu, að í hvert skipti sem þú stingur þann sem langar að bragða á hunangi þínu, munt þú deyja." Um líkt leyti varð engisprettan blind og maurinn glataði vængjum sínum, svo að hann gat ekki flogið.

Já, það var margt sem gerðist þennan dag. Drottinn sat allan daginn í veldi sínu, skapaði og veitti líf. Þegar leið að kvöldi langaði hann mjög að skapa lítinn gráan fugl. ?Glóbrystingur skaltu heita" sagði Drottinn við fuglinn þegar hann var fullskapaður, og mundu nú nafnið þitt. Hann setti fuglinn á handarbak sitt og sleppti honum. Þegar fuglinn hafði hnitað nokkra hringi og litið hina fögru jörð sem hann átti að byggja, varð honum litið á sjálfan sig og sá að hann var allur grár á lit, hálsinn og allt annað. Glóbrystingurinn velti sér á alla kanta og speglaði sig í vatninu, en hann gat ekki komið auga á eina einustu rauða fjöður. Fuglinn flaug aftur til Drottins. Drottinn sat á sínum stað mildur á svip. Sumarfuglar flugu af handarbökum hans og flögruðu um höfuð hans, dúfur kurruðu á herðum hans og á enginu þar sem hann sat uxu liljur í öllum regnbogans litum. Hjarta litla fuglsins sló ótt og títt. Samt flaug hann í fallegum hringum og nálgaðist sífellt Drottin. Loks settist hann á handarbak hans.
Drottinn spurði: ?Hvað er þér á höndum?"
?Mig langar aðeins að spyrja þig um dálítið" sagði litli fuglinn.
?Hvað er það?" sagði Drottinn.
?Hvers vegna á ég að heita glóbrystingur, þegar ég er algrár frá hálsi og aftur að stéli og hef enga rauða fjöður?" Fuglinn horfði dökkum augum sínum biðjandi á Drottin. Allt í kring leit hann alrauða og gulllitaða fasana, páfagauka með rauðan kraga um hálsinn, hana með rauða kamba, svo að ekki sé talað um aðra fagurlitaða sumarfugla, gullfiska og rósir. Og auðvitað hugsaði hann með sér hvað hann þyrfti lítið, aðeins einn lítinn dropa af rauðum lit á brjóstið, þá mundi hann bera nafn með réttu ?Hvers vegna á ég að heita glóbrystingur, þar sem ég er algrár?" spurði fuglinn aftur og beið eftir að Drottinn segði: Æ, vinur minn, nú sé ég að ég hef gleymt að lita hálsfjaðrir þínar rauðar, en bíddu eitt augnablik, ég skal gera það". Drottinn brosti með sjálfum sér og sagði: ?Ég hef nefnt þig glóbrysting, og það skaltu heita, en þú verður sjálfur að afla þér rauðra hálsfjaðra".

Drottinn lyfti hendi sinni og lét fuglinn fljúga aftur út í geiminn. Fuglinn flaug aftur um Paradís og braut mjög heilann um, hvað svo lítill fugl gæti gert til þess að eignast rauðar fjaðrir? Það eina sem honum datt í hug var að gera sér hreiður í villtum rósarunna. Hann gerði sér hreiður í þéttum þyrnirunna. Það var eins og hann vænti þess að rósarblað snerti háls hans og litaði hann.

Langur tími er liðinn frá þessum degi, sem var sá gleðilegasti er á jörðu hafði komið. Síðar yfirgáfu menn og dýr Paradís og byggðu jörðina. Mennirnir höfðu lært svo mikið, að þeir gátu ræktað jörðina og siglt um höfin. Þeir klæddust fötum og skreyttu sig með alls konar skrauti. Þeir höfðu jafnvel fyrir löngu lært að reisa stór musteri og voldugar borgir eins og Þebu, Róm og Jerúsalem.

Þá rann upp sá dagur sem lengi verður minnst í sögu mannkyns. Glóbrystingurinn sat á lágri hæð utan múra Jerúsalemborgar og söng fyrir ungana sína, sem kúrðu í litlu hreiðri inni í lágum þyrnirunni. Hann sagði ungunum frá hinum undarlega degi sköpunarinnar, hvernig Guð hafði gefið þeim nafn. Þá sögu hafði hver einasti glóbrystingur sagt allt frá þeim fyrsta sem Guð hafði í upphafi skapað. ? Og hlustið nú" sagði hann að lokum hryggur í bragði." Það eru liðin svo mörg ár, enginn getur sagt ykkur hversu margir rósaknappar hafa opnað sig, hversu margir fuglsungar hafa komið úr eggjum síðan sköpunardaginn mikla. Glóbrystingurinn er ennþá lítill grár fugl, honum hefur ekki enn tekist að vinna til þess að eignast rauðar fjaðrir." Ungarnir litlu göptu af undrun og spurðu hvort foreldrar þeirra hefðu ekki unnið einhver afrek til þess að eignast þennan dýrmæta rauða lit. ?Við höfum gert allt það sem í okkar valdi hefur staðið", sagði litli fuglinn, ?en enginn okkar hefur haft heppnina með sér. Fyrsti glóbrystingurinn mætti strax fugli sem líktist honum mjög. Hann varð svo altekinn af kærleika til hans, að honum fannst eins og hjarta sitt brenna. Ó, hugsaði hann með sér. Drottinn ætlast til þess að ég elski svo heitt, að fjaðrir mínar verði rauðar af þeirri kærleiksglóð sem í hjarta mínu býr. En hann varð fyrir vonbrigðum. Og allir sem á eftir honum komu og jafnvel þið verðið fyrir vonbrigðum." Litlu ungarnir kurruðu hryggir í bragði. Þeir fóru þegar að örvænta um að rauði liturinn myndi nokkurn tíma skreyta litlu fiðruðu hálsana sína. ?Við settum von okkar á sönginn", sagði fullorðni fuglinn og talaði hægt og skýrt. ?Fyrsti glóbrystingurinn hafði strax svo fallega söngrödd, að brjóst hans svall af gleði, og hann öðlaðist nýja von. Ó, hugsaði hann með sér, það er glóð söngsins í sálu minni sem á að gera fjaðrir mína rauðar. En hann varð fyrir sömu vonbrigðum og allir glóbrystingar hafa orðið fyrir og þið einnig." Örvæntingarstunur liðu upp frá hálffiðruðum hálsum unganna. ?Við bundum vonir okkar einnig við hugrekki og hreysti" sagði fuglinn. ?Fyrsti glóbrystingurinn háði hetjulega baráttu við aðra fugla og brjóst hans brann af eldmóði. Ó, hugsaði hann með sér. Fjaðrir mínar verða rauðar af þeim eldmóði sem brennur í hjarta mér. En hann varð fyrir sömu vonbrigðum og hinir." Litlu ungarnir tístu hugrakkir, að þeir myndu samt sem áður reyna að vinna til þessarra eftirsóknaverðu verðlauna. Fuglinn svaraði þeim hryggur í bragði að það væri ógerlegt. Hverju gátu þeir búist við, þar sem svo margir ágætir forfeður þeirra náðu ekki takmarkinu? Hvað annað var hægt að gera en elska, syngja og berjast? Hvað gátu......?

Fuglinn þagnaði snögglega í miðri ræðu sinni. Hópur fólks kom út um eitt hlið Jerúsalem. Mannfjöldinn hraðaði för sinni að hæðinni, þar sem fuglinn átti hreiður sitt. Þarna voru riddarar á fjörugum gæðingum, hermenn með löng spjót, þjónar böðlanna með nagla og hamra. Þar voru prestar og dómarar hátíðlegir á svip, grátandi konur og ekki síst stór og óhugnanlegur hópur öskrandi flækinga. Litli grái fuglinn sat titrandi á brún hreiðurs síns. Hann bjóst við á hverju augnabliki að þyrnirunnurinn yrði troðinn niður og litlu ungarnir hans drepnir. ?Gætið ykkar" hrópaði hann til varnarlausra unganna, ?komið hérna saman og verið alveg grafkyrrir. Nú fer hestur rétt fyrir ofan okkur, og þarna er hermaður á járnslegnum ilskóm. Og nú kemur hinn tryllti skari æðandi." Allt í einu hætti fuglinn aðvörunum sínum, hann varð kyrr og þögull. Hann gleymdi næstum þeirrri miklu hættu sem hann var í. Hann hoppaði niður í hreiðrið og breiddi vængina yfir ungana sína. ?Nei, þetta er alltof hræðilegt. Þetta megið þið ekki sjá. Það á að krossfesta þrjá afbrotamenn." Og hann breiddi út vængina, svo að ungarnir gætu ekkert séð. Þeir heyrðu aðeins hamarshögg, kvein og æðisgengin hróp mannfjöldans. Glóbrystingurinn fylgdi atburðarásinni eftir dauðskelkaður. Hann gat ekki haft augun af þessum þrem óhamingjusömu mönnum. ?Mikil er vonska mannanna" mælti hann nokkru seinna. ?Þeim nægir ekki að negla þessa vesalinga á kross. Þeir hafa hafa líka sett þyrnikórónu á höfuð eins þeirra. Ég sé að þyrnarnir hafa stungist inn í enni hans svo undan blæðir" hélt hann áfram. ? Og þessi maður er svo fagur og lítur svo mildum augum kringum sig að allir hljóta að elska hann. Það er eins og ör stingist gegnum hjarta mitt þegar ég horfi á þjáningu hans." Meðaumkun litla fuglsins með hinum þyrnikrýnda magnaðist sífellt. Hann hugsaði með sér. Væri ég örninn bróðir minn, myndi ég draga naglana úr höndum hans og reka burtu með sterkum beittum klónum þá sem píndu hann. Fuglinn sá blóðið renna niður enni hins krossfesta og hann gat alls ekki haldist lengur við í hreiðrinu. Hann hugsaði með sér. Þó að ég sé lítill og veikburða get ég ef til vill gert eitthvað fyrir vesalings þjáða manninn. Hann yfirgaf hreiðrið, flaug upp í loftið og hnitaði stóra hringa umhverfis hann. Glóbrystingurinn fór marga hringi áður en hann vogaði sér að nálgast hinn krossfesta, því að hann var lítill feiminn fugl sem aldrei hafði haft hugrekki til að koma nálægt mönnunum. Smám saman tók hann sig þó á, flaug beint til hans og dró með nefi sínu út þyrni, sem stungist hafði í enni hans. En um leið féll dropi af blóði krossfesta mannsins á brjóst litla fuglsins. Dropinn stækkaði ört og litaði allar litlu fíngerðu fjaðrirnar á brjósti hans og hálsi. Maðurinn lauk upp munni sínum og sagði veikri rödddu við fuglinn. ?Vegna miskunnar þinnar hefur þér tekist það sem forfeður þínir hafa árangurslaust reynt allt frá sköpun heimsins."

Þegar fuglinn kom aftur í hreiðrið hrópuðu litlu ungarnir hans. ?Brjóstið þitt er rautt, fjaðrirnar um hálsinn eru rauðari en rósir." ? Það er aðeins blódropi úr enni vesalings mannsins" sagði fuglinn. ?Hann hverfur strax þegar ég baða mig í læk eða tærri lind." En hversu mikið sem litli fuglinn baðaði sig hvarf rauði liturinn ekki af brjósti hans. Þegar litlu ungarnir voru fullvaxta glóði einnig á blóðrauðan litinn á hálsfjöðrum þeirra. Þannig gerðist undrið og glóbrystingurinn er enn í dag rauður um háls og brjóst.

Þýtt (Magnús Guðjónsson)