Fortjaldið


"Og musteri Guðs opnaðist, það sem á himni er.? Opnb.1:19.
Samstofna guðspjöllin þrjú, Matteusar, Markúsar og Lúkasar segja frá atburði sem sjaldan er minnst á, en hefur þó meiri þýðingu en flest annað. Þegar Jesús gaf upp andann á krossinum á Golgata rifnaði fortjald musterisins í tvennt ofan frá og niður úr, eða eins og annað guðspjall skýrir frá, rifnaði sundur í miðju.

Musterið í Jerúsalem, þar sem þessi atburður gerðist, var kennt við Heródes konung. Hann hóf árið 20 f.Kr að endurbæta musteri Serúbabels sem fyrir var. Hann var foringi stærsta hóps Gyðinga sem sneru úr herleiðingunni í Babel til Jerúsalem árið 538 f.Kr. Serúbabel hóf ásamt Jósúa æðsta presti og þjóðinni að reisa musterið í Jerúsalem.

Musterissvæðið tók litlum breytingum frá því að Salómon reisti musterið sem við hann er kennt. Samt er það svo eftir því sem fornleifafræðingar segja að musteri

Salómons tók yfir miklu minna svæði en það sem síðar þurfti undir musteri Heródesar á dögum Jesú.

Musterissvæðinu var skipt í marga forgarða og musterinu sjálfu í forsal með hliðarbyggingum, hinu heilaga og allra helgasta. Fortjald skildi þar á milli og Gyðingar álitu, að inni í hinu allra helgasta væri unnt að komast næst Guði þeirra.

Friðþægingardaginn mikla fór æðsti presturinn inn í það allra helgasta

Dagurinn var almennur iðrunardagur, þá var helgihald og fasta. Æðsti presturinn tók blóð fórnarlambsins sem venjulega var geithafur, fór inn fyrir fortjaldið, stökkti blóðinu á sáttmálsörkina, friðþægði fyrir sig, hús sitt og alla Ísraelsmenn. Sáttmálsörkin var helgasti gripur í helgidóminum. Hún var tákn þess, að Guð væri með þjóð sinni.

Þetta fortjald reif Guð niður á sama tíma og sonur hans, Jesús Kristur gaf upp andann á krossinum. Þar með var leiðin inn í hið allra helgasta öllum opin eða eins og segir í Hebreabréfinu 10:19,20.

"Vér megum nú, bræður, fyrir Jesú blóð með djörfung
ganga inn í hið heilaga, þangað sem hann vígði oss
veginn, nýjan veg og lifandi inn í gegnum fortjaldið,
það er að segja líkama sinn.?

Fyrirmynd musterisins er samfundatjaldið sem Móse lét reisa á eyðimerkurför Ísraelsmanna. Var það einskonar flytjanlegur helgidómur þeirra. Þar héldu þeir guðsþjónustur sínar og tilbáðu Guð sinn

Í 2. Mósebók 36. kapítula er lýsing á fortjaldinu.

"Það er gjört af bláum purpura, rauðum purpura,
skarlati og tvinnaðri baðmull. Var það tilbúið
með listvefnaði og kerúbar á. Dúkbreiða var á því
gjörð fyrir dyr tjaldsins úr sama efni og fortjaldið
sjálft.?

Fortjaldið var því skrautlegt og lítill vafi á því að Ísraelsmenn hafi reynt að halda mikilleik þess í síðari helgidómum sínum.

Æðsti presturinn fór inn fyrir fortjaldið, inn í hið heilaga einu sinni á ári. Kristur í eitt skipti fyri öll. Æðsti presturinn færði árlega fyrirgefningarfórn. Kristur færði eilífa fórn. Æðsti presturinn fórnaði blóði dýra, Kristur sínu eigin. Fórn æðsta prestsins hreinsar holdið, fórn Krists hreinsar samviskuna, við biðjum í hans nafni að hann fyrirgefi okkur allt það sem við höfum brotið gegn hans heilaga vilja.

Og leiðin er rudd. Sumir telja að vísu að frumkristnin hafi litið á atburðinn þegar fortjald musterisins rifnaði sem líkingamál. Eitt er víst hér er um örlagaríkan atburð að ræða, ef til vill einn veigamesta þáttinn í allri hjálpræðissögunni. Guð er ekki lengur fjarlægur, hulinn. Hann er opinber, sýnilegur í syni sínum, eins og kemur greinilega fram í guðspjalli Jóhannesar 14. kapítula 9 versi, þegar Filippus segir við Jesúm:

"Herra, sýn þú oss föðurinn, og Jesús svarar;
Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn.?
Nú er leiðin opin. Eftir krossdauða Krists koma páskar og hvítasunna.
Páskar, hátíð upprisunnar, sigurhátíðin mikla sem flytur okkur hinn fagnaðarríka
boðskap, að "dauðinn dó en lífið lifir.?

Hvítasunnan, er drifkrafturinn í lífi hins kristna manns. Á einum stað gefur Páll postuli okkur einfalda skýringu á því, hvað hvítasunna táknar. Hann segir í 1. Kor. 2: 12,

"En vér höfum ekki hlotið anda heimsins,
heldur andann, sem er frá Guði, til þess
að vér skulum vita, hvað oss er af Guði
gefið.?

Við verðum leidd inn í sannleikann. Við getum ekki rökrætt hvað sannleikur er, við getum ekkert byggt upp í eigin mætti. Það er faðirinn sem beinir okkur inn á rétta veginn, Það er sonurinn sem ryður veginn og það er heilagur andi sem tendrar ljósið svo að við getum séð veginn.

Allt sem unnið er í þágu guðsríkis hér á jörðu er að tilstuðlan heilags anda. Hvernig það gerist er okkur ekki ætlað að útskýra eða skija. Það er leyndardómur sjálfs lífsins sem við stöndum þá frammi fyrir. Við beygjum aðeins kné og tökum undir það sem Páll postuli segir:

"Enginn getur sagt: "Jesús er Drottinn!? nema af heilögum anda.?

Atburður fyrsta hvítasunnudagsins hefði ekki gerst ef fortjaldið hefði ekki verið rofið.

Kærleikurinn og heilagur andi verða ekki aðskilin. Guð sýnir okkur kærleika sinn með því að Kristur dó fyrir okkur meðan við vorum í syndum okkar. Þegar heilagur andi kallar okkur til ábyrgðar og skyldurækni höfum við tryggingu fyrir því að Guð er nálægur með kærleika sinn. Þegar kross Jesú á Golgata verður okkur raunveruleiki, þá er það heilagur andi sem opnar augu okkar. Þegar við förum út til þess að þjóna meðbróður okkar í neyð án þess að hægri höndin viti hvað sú vinstri gjörir þá vinnur kærleiki Guðs í okkur.

Við fæðingu Jesú opnaðist himinninn og himneskar verur birtust, englar.

Fyrsta hvítasunnudaginn opnaðist himinninn, en nú komu ekki englar. Nú kom Andinn heilagi, huggarinn, hjálparinn. Lærisveinarnir fengu líf andans, nýtt líf.

Virtu fyrir þér breytinguna. Þeir fylltust heilögum anda, kristin kirkja verður til.

Hennar hlutverk er að flytja fagnaðarboðskapinn um náð fyrir syndara sem leitar til hins krossfesta.

Enn skilur fortjaldið mikla milli jarðnesks og himnesks lífs. Og einhvern tíma verða allir að ganga í gegnum það. Ekki er þörf á frekari fórn, hún er færð í eitt skipti fyrir öll. Þá vegur þyngst, að leiðin er opin.

Magnús Guðjónsson.