Svarta Maríumyndin

Gömul helgisögn eftir Margaret T. Appelgarth

Fyrir langa löngu stóð til að reisa kirkju í borg einni í Bandaríkjunum, og í kirkjunni átti að vera stór og mikill gluggi úr gler-mósaík. Nefndin sem fjalla átti um málið, ákvað að láta fara fram samkeppni meðal listamanna sem víðast um gerð þessa glugga. Hún lét boð út ganga um óskir sínar og tiltók ákveðinn tíma, þegar allar tillögur áttu að vera komnar til skila. Margir frægir listamenn sendu nefndinni teikningar, en sú tillagan sem allir nefndarmenn voru samdóma um að væri langbest, var eftir listamann, sem engin þekkti nein deili á. Nefndin skrifaði honum og lét í ljós áhuga sinn og hrifningu og kvaðst ekki geta fundið neina tillögu, sem betur uppfyllti óskir hennar en teikningu þá, er hann hafði sent og nefnt: ?Hvílan þar sem ungbarnið lá".
Þetta var alveg eins og þeir höfðu best getað óskað sér, og þeir fólu honum skriflega að taka að sér gerð gluggans og sjá um útfærslu verksins. Var lögð áhersla á, að verkinu yrði að vera lokið og gluggin kominn á sinn stað fyrir vígslu kirkjunnar á jóladag.
Þessi óþekkti listamaður varð, eins og gefur til skilja, ákaflega glaður yfir því, að honum skyldi hlotnast slíkt tækifæri, bæði til þess að afla sér fjár og ávinna sér frama og einnig til þess ?að ná sér niðri á gjörvöllu mannkyninu", eins og hann komst að orði. Hann bar í brósti hatur, sem var bæði djúpstætt og biturt, og þessi kennd vék ekki úr huga hans nótt né nýtan dag og hélt honum bundnum við verk sitt í vinnustofunni. Þar dvaldi hann langdvölum, án þess að blanda geði við nokkurn mann. Hann handlék uppdráttin, sem nefndin hafði samþykkt að velja og lýst hrifningu sinni á, en hann gerði smávægilegar breytingar á henni af illkvittnislegri ánægju. Því næst kallaði hann á konu sína og barnið þeirra unga og lét þau sitja fyrir á meðan hann vann að stækkun myndrinnar.
Konan hafði einmitt verið að hengja þvott til þerris er hún kom inn, með sjal yfir höfðinu og hvítvoðunginn í taukörfunni. Hún lagði körfuna frá sér, laut yfir barnið og saðdi blíðlega um leið og hún leit upp: ?Ó, barnið er sofnað! Hann sefur svo vært. Ef ég tek hann upp, vaknar hann og fer að gráta..."
?Hreyfðu hann ekki!" hrópaði listamaðurinn. ?Stattu kyrr þar sem þú ert! Þessi uppstilling er alveg fullkomin! Hugsaðu þér, að karfan sé jatan, að þú sért María guðsmóðir og að þú hafir beygt þig niður að jötunni til þess að gæta að því, hvort Jesúbarnið svæfi. En svo litir þú upp vegna þess að þú heyrir hljóð - heyrir einhvern nálgast - það eru einhverjir fyrir utan, menn sem koma ríðandi á úlföldum. Það eru vitringarnir þrír frá Austurlöndum!
Hérna efst á léreftinu ætla ég að mála stjörnuna sem birtist á himninum og skein á staðinn þar sem barnið lá. Hreyfðu þig ekki, væna mín! Ekki hreyfa! Þetta er ágætt." Og kona listamannsins sat fyrir á þennan hátt og honum fannst sýnin nálgast fullkomnun. Með snöggum hreyfingum málaði hann hana þar sem hún kraup við hvílu barnsins. Þetta varð miklu fegurri mynd en hann hafði nokkru sinni dreymt um að gera, en það var sökum þess að konan, sú sem sat fyrir, bar ekkert hatur í brjósti til nokkurs manns eins og hann. Og þar sem hún laut niður að sofandi barni þeirra, kom yfir hana mikill friður.

1)
Er hún leit upp og sá hvar bóndi hennar málaði af hjartans list og ákafa, varð hún hugfangin og hjartanlega glöð yfir því að nú loks hefðu hinir miklu hæfileikar hans verið viðurkenndir og frægð hans og frami virtust í sjónmáli. Krjúpandi við hvílu barnsins tók hún að hugleiða, hver það var sem hún átti að tákna. Það var María, móðir Frelsarans, móðir Jesú. Þetta fyllti hjarta hennar unaði og hún fann hvernig allar vonir mannkynsins voru bundnar hvítvoðungnum. Fram í hugann steymdu óskir þess efnis, að litli drengurinn mætti vaxa og dafnaog verða til blessunar öllum mönnum. Af vörum hans mætti streyma huggun til handa öllum sem hrjáðir voru á sama hátt og orð Frelsarans höfðu ævinlega huggað. Hún ætlaði að minnsta kosti að leggja sig fram um það að ala denginn upp í kristilegu siðgæði. Við þessar hugleiðingar varð þreytulega andlitið fegurra en nokkru sinni fyrr, og friður og mildi lýstu úr ásjónu hennar. Listamaðurinn skynjaði þetta af næmi sínu. Hann greip pensilinn og málaði og náði að festa á blað óvenju fagra mynd. Hann málaði í þögulli gleði, en þrátt fyrir gleðina og fögnuðinn sem fyllti hjarta hans var stutt í biturleikann og hatrið sem hann hafði svo lengi borið í brjósti sér, og hann tautaði fyrir munni sér með fyrirlitningar glotti: ?Því betur sem mér tekst með myndina, þeim mun betur endurgeld ég allar móðganirnar, allt óréttlætið og allt hatrið, sem ég hef orðið að þola." Það var því ekki nema hluti hjarta hans, sem konan hans átti á þessari stundu. Hinn hlutinn velti sér upp úr ánægjunni við tilhugsunina um hneykslið, sem hann ætlaði sér að valda í kirkjunni fjarlægu á jóladag.
Dögum saman hélt unga konan áfram að sitja fyrir með kornbarnið í þvottakörfunni, eða þar til listaverkinu var lokið og allt var til reiðu fyrir þá sem áttu að vinna glerið í glerverksmiðjunni. En nú kom upp mikið vandamál. Ef leyndarmál hans uppgötvaðist, myndi allt fara út um þúfur. Hann lagði höfuðið í bleyti og tókst að finna snjallt ráð til þess að koma í veg fyrir að upp kæmist um áform hans.
Viku fyrir jól barst glerið til borgarinnar, en þar stóð kirkjan fullbyggð. Nú var hafist handa að setja gluggann upp og þaulæfðir handverksmenn unnu kappsamlega að því að raða hlutunum saman. En mönnum brá í brún, því að í ljós kom að einhver skekkja var á ferðinni og handverksmennirnir vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Það vantaði bæði andlit og arma heilagrar Maríu og einnig barnsins og hvernig sem leitað var að glerinu, fannst það ekki. Handverksmennirnir urðu skelfingu lostnir þar til listamaðurinn birtist sjálfur og róaði þá. Hann sagðist sjálfur hafa komið með þá hluta glersins sem þeir söknuðu og væru þeir í fórum hans. Hann sagði að þetta væri kækur hjá sér að ganga ævinlega sjálfur frá andliti og örmum, þegar allt annað væri fullbúið. ?Mér er þetta mikið hjartans mál," sagði hann til þess að sannfæra verkamennina. Og þegar þeir urðu þess áskynja, að hann kunni öll tök á uppsetningu glersins, urðu þeir rólegir og féllust þegar á ósk hans um að vinna þetta verk.
Kirkjan angaði af greni og blómum. Skreytingarmenn höfðu unnið við að skreyta ræðustól, súlur og bekki og voru farnir að loknu verki sínu. Listamaðurinn var aleinn í kirkjunni við að framkvæma áform sitt. Hann var ákveðinn á svip er hann klifraði upp stigann og tók til við að festa hið fagra dökka andlit Guðsmóðurinnar með blýi og koma örmum hennar, sem umvöfðu hið sofandi barn, fyrir á réttum stað. ?Jæja þá," sagði listamaðurinn sigri hrósandi, ?Þá hef ég nú endurgoldið heiminum meðferðina á mér. Nú mun allt þetta kristna fólk verða ofsareitt og kannski finnst einhverjum, að honum hafi verið sýnd fyrirlitning."
Um það leiti sem vígsluathöfnin átti að hefjast, læddist listamaðurinn, svo að lítið bar á, inn í aftasta bekk kirkjunnar. Raunar var óþarft fyrir hann að vera í felum, því að enginn hafði hitt hann og hann var alls ókunnur á þessum slóðum. Og það fór á sama hátt og hann hafði búist við.

2)
Allur söfnuðurinn horfði agndofa upp til gluggans, og gremjusvipurinn leyndi sér ekki. Menn hvísluðu og pískruðu, og ýmsar hreyfingar og tilburðir báru reiðinni ljósan vott. ?Nú er ég að endurgjalda þeim - nú er ég að hefna mín," sagði listamaðurinn við sjálfan sig og fann hatrið kalda í brjósti sér.
Vígsluathöfnin, sem var einkar fögur, hélt áfram eins og ráð hafði verið gert fyrir, en þegar síðasti sálmurinn hafði verið sunginn og blessunarorðin lesin, tók fólk að hópast saman í súlnagöngunum og augu allra beindust að glugganum. ?Andlitið á Maríu guðsmóður er svart," kvað við úr hvers manns munni. Hún lítur út alveg eins og negri! Meira að segja Jesúbarnið er alveg eins og svertingi! Þetta var ekki þannig á frummyndinni! Það hefur verið leikið á okkur! Við getum ekki leyft slíkan glugga í jafn stórkostlegri kirkju! Þetta er til háborinnar skammar! Svört Maríumynd á þessum stað? Nei, það er óhæfa!"
Listamaðurinn var á stjákli að baki einnar súlunnar og naut þess að vera heyrnarvottur að þessum ummælum. Andlit hans var harðneskjulegt og hjart hans var fullt haturs. Honum fannst, að nú loks væri hann að ná sér niðri á fólki því sem sýnt hafði honum áralanga lítilsvirðingu og ósvífni.
Kirkjuklukkurnar ómuðu um miðnæturskeið, en söfnuðurinn hafði yfirgefið kirkjunna daufur í dálkinn og sáróánægður. Fréttin barst út eins og eldur í sinu, og þegar að messu kom á jóladagsmorgun streymdi fólk til kirkju, og það varð fleira um mannin en nokkru sinni fyrr. Venjulega voru það aðeins fáeinar tryggar sálir, sem sóttu þessa guðsþjónustu, en nú komu allir til þess að sjá með eigin augum hina heilögu guðsmóður með svarta andlitið. Presturinn, sem var þekktur fyrir mildi sína og góðvild og var að allra manna dómi bæði réttsýnn og góður maður, lá andvaka þessa nótt. Hann gat ekki sofið því að hugsunin um prédikunina lét hann ekki í friði. Hvernig átti hann að leggja út af textanum, sem letraður hafði verið á gluggann nýja og hann hafði tilkynnt að hann myndi tala um? ?Með honum bjó líf og lífið var ljós mannanna". Hann hafði fyrir löngu ákveðið að öll guðsþjónustan skyldi helguð glugganum og myndinni, þar sem þar gaf að líta. Hann ætlaði að beina allra augum að Jesúbarninu og leggja ú af því, hvernig vonir mannkynsins væru bundnar hvílu þessa barns - en, hvað átti hann nú að gera? Átti hann að minnast á svörtu myndina af guðsmóðurinni og barninu?
Árla morguns, er hann gekk upp að dauflýstum prédikunarstólnum, var hann í þungum þönkum. Ekki minnkuðu áhyggjur hans er hann sá kirkjuna fyllast af fólki, sem allt horfði í sömu átt.
?Teningunum er kastað," sagði presturinn við sjálfan sig. ?Ég verð að leggja út af myndinni í glugganum eins og ég ætlaði mér. Góður Guð styrktu mig - hjálpaðu mér að velja rétt orð." Hann reis á fætur og las textann: ?Með honum bjó líf og lífið var ljós mannana."
Skyndilega braust vetrarsólin í gegnum gluggan. Geislar hennar voru sterkir þar sem öll náttúran var snævi hulin, og það fór kliður um kirkuna við þessa sýn. Mönnum hafði brugðið, er þeir sáu, hvernig sólargeislarnir, þennan jóladagsmorgun, brutust inn og brotnuðu í glerinu, svo að andlit Maríu guðsmóður líktist einna helst ásjónu engils og undurfagur geislabaugur umlukti höfuð Jesúbarnsins. ?Með honum bjó líf," endurtók presturinn og benti til himins, ?og lífið var ljós mannana."
Þessi atburður, er geislar morgunsólarinnar breyttu ásjónu svörtu Maríumyndarinnar og Jesúbarnsins, varð klerkinum innblástur, svo að ræða hans varð öllum viðstöddum ógleymanleg og hafði meiri áhrif en nokkurn hafði órað fyrir.

3)
?Hvað kemur ykkur og mér til að afneita þeldökkri Maríumynd í þessari kirkju?
Í upphafi skapaði Guð mannin en hann gerði ekki greinarmun á mannfólkinu. Hann sagði ekki: ?Við skulum skapa hvítan mann í okka mynd." Nei, hann sagði, látum okkur skapa mann. Sumum gaf hann svart hörund, öðrum brúnt og enn öðrum hvítt. Það er útilokað, að litarhátturinn hafi skipt hann neinu máli, því að honum þóknaðist að í Afríku skyldu búa hundruð milljóna svartra manna, í Kína mörg hundruð milljónir gulra, á Indlandi hundruð milljónir brúnna og í Evrópu og Ameríku nokkur hundruð milljónir hvítra. Það er vegna þessara staðreynda, að ég geri það af einlægni og dýpstu auðmýkt hjartans: Hver er svartur nú er Frelsarinn lítur niður til okkar í þessari fögru kirkju? Er það blakka Maríumyndin? Eða skyldi það vera þú eða ég með neikvætt og myrkt hugarfar vegna þess að okkur finnst einsýnt að Guðsmóðirin skuli hafa litarhátt okkar? Hve hræsni okkar er takmarkalaus!
Þessi undarlega formyrkvun sálarinnar sem sér ekki ljós Guðs skína með öðrum kynflokkum eða með fólki af öðrum litarhætti!
Hafið þið gleymt gömlu sögunni ú Biblíunni, þegar Guð sendi son sinn til jarðar? Hann valdi ekki móður af hinum hvíta kynstofni heldur konu, dökka yfirlitum, af Gyðingaætt. Látum okkur því, bræður og systur, þennan jóladagsmorgun, vera skynsöm. Látum skynsemina ráða gerðum okkar og færum gjafir Frelsara allra manna og á þann stað, sem hvíla Jesúbarnsins var. Látum okkur færa þá gjöf sem mörgum reynist erfitt að færa, en það er að kasta burt öllum kynþáttafordómum. Því að með honum var líf og lífið var ljós allra manna - allra litarhátta."
Skjögrandi á fótunum gekk þeldökkur maður upp að ræðustólnum og rétti prestinum lítinn böggul um leið og hann sagði grátklökkum rómi: ?Þetta er jólagjöf mín til kirkjunnar ykkar sem ég hef dæmt á sjúklegan og eigingjarnan hátt. Gjörið þér svo vel. Þetta er frumgerð glerjanna í ásjónu Maríu og barnsins. Það var ég sem skipti um gler og settu þau svörtu í gluggann. Ég ætlaði með því að sanna yður hve miklir hræsnarar þið eruð sem kallið ykkur kristið fólk. Ég ætlaði að sanna að trú ykkar væri yfirborðskennd og hefði ekkert með með sanna kristna trú að gera. En nú hafið þér sýnt mér að ég hafði á röngu að standa. Þér hafið sýnt mér, að það var ég sem var litblindur og að fyrir augliti Guðs almáttugs er hvorki til svart né hvítt, ef ljós hans fær að skína á það."
Og söfnuðurinn tók undir. Við höfum lært mikið í dag. Menn tóku til máls og sögðu: ?Svörtu Maríumyndina viljum við hafa í kirkjunni okkar um ókomin ár, svo að börn okkar og barnabörn megi sjá á hverjum sunnudegi, hvernig ljósið sem kom í heiminn með komu Jesúbarnsins er sannarlega ljós heimsins, sem skín í gegnum andlit allra Guðsbarna á jörðunni, hvernig sem hörundsliturinn kann að vera."
Og söfnuðurinn hóf að syngja: ?Lofið vorn Drottin hinn líknsama föður á hæðum".
Og þennan dag fór hver til síns heima með nýjan skilning á orðum engilsins: ?Friður á jörðu meðal allra manna."

Anna Snorradóttir Þýddi og endursagði. (Húsfreyjan 1978)