Fyrsta Biblían sem kom til Japan

Nærfelt hálf önnur öld er síðan fyrsta Biblían kom til Japan ( um 1850).
Í Bjarma frá 1909 má lesa merkilega frásögn um þann atburð:

Öldurnar skoluðu bókinni á land í Nagasaki-flóanum. Maðurinn sem fann hana, gat auðvitað ekki skilið eitt orð í þessari bók. En hann geymdi hana eins og fáséðan grip, og sýndi hana ferðamanni, sem kom þangað.
Hann sagði honum að það væri biblían á hollensku, en það væri líka hægt að fá hana á kínversku. Manninum lék hugur á bókinni og fór að reyna að fá hana í kínverskri þýðingu. Það heppnaðist honum; hann fékk eina og hann og vinir hans tóku að lesa hana af miklu kappi.
Þegar þetta gerðist hafði enginn mótmælenda-trúboði stigið fæti sínum á land í Japan. En eftir nokkur ár fóru þeir að koma; og þessi litli hópur, sem hafði safnast saman til að lesa í biblíunni heyrði hana nú fyllilega útskýrða. Þeir voru vel undir það búnir að taka á móti náðarboðskapnum.
En maðurinn sem fann biblíuna í fjörunni, varð verkamaður í víngarði Drottins og er það enn eftir því sem japanski presturinn sem sagt hefur þessa sögu segir.(Þá voru 50 ár síðan atburðurinn gerðist)

G. Á. þýddi