Helen Keller

(1880-1968)

Víða um heim er hún kunn, þessi merkilega kona. Ævi hennar öll er eins og ótrúlegt ævintýri. Hún er fædd árið 1880 í Tuscumbia, lítilli borg í norður Alabama.
Aðeins 19 mánaða gömul verður hún fyrir alvarlegum veikindum og missir bæði sjón og heyrn. Hún átti góðu atlæti að fagna og lærði bæði að tala og skrifa og ferðaðist víða um heim, meira að segja kom hún til Íslands.
Í pistlum sínum í Kirkjuritinu frá 1957 skrifar Sr. Gunnar Árnason m.a. um heimsókn hennar: "Hún varð hámenntuð og hefir skrifað margar ágætar bækur, hefir að vissu leyti ekki átt sinn líka í veröldinni. Mun þó göfgi hennar mest. Engum sem heyrðu hana og sáu, mun hún auðgleymd, en blinda fólkinu mun hún samt hafa verið mesti aufúsugestur og þörfust. Svo fallega og innilega talaði hún máli þess.
Færri en vildu fengu hlustað á erindið sem hún flutti í háskólanum. Vel mæltist henni, fróðlegt að sjá hvernig hún nam orðin af vörum og höndum hjálparkonu sinnar, undravert hve hún sýndist njóta hljómanna með því aðeins að halda annarri hendinni á flýglinum.
Eitt varð mér samt minnisstæðast. Aðspurð um bækur og höfunda, sem hún hefði lesið og fyndist mikið til um, nefndi hún Plato, Descartes, Kant. En bókin sem hún taldi besta og hafa orðið sér til mestrar blessunar var Biblían. Helen Keller sagði um hana. "Hún hefir verið sem ljósfljót um myrkviði hugarlanda minna."
Þetta er mikilsverður vitnisburður og ábending, einnig fyrir oss hin, sem bæði heyrum og sjáum."
Þannig farast Sr. Gunnari orð um þessa ótrúlegu konu, þennan mikla mannvin, sem tókst með gáfum sínum og óþrjótandi elju, ekki aðeins að komast í samband við kennara sinn og nánustu vini, heldur ferðaðist um hinn stóra heim í því augnamiði að hjálpa og uppörva þá sem eins var ástatt fyrir og henni sjálfri.
Hún reit margar bækur og ber ein þeirra titilinn "Fyrir trú."
Bók hennar "ÆVISAGA MÍN,"kom út á íslensku 1947 í þýðingu Hólmfríðar Árnadóttur. Í þýðingunni er þó sumum köflum bókarinnar sleppt eins og t.d.
sendibréfum o.fl. Á einni síðu bókarinnar er haft eftir henni:
" Biblían gefur mér þann djúpa og huggunarríka skilning, að: sýnilegir hlutir séu stundlegir, en ósýnilegir hlutir séu eilífir."
Í viðbæti bókarinnar (að mestu eftir John Albert Macy), segir m.a.: Það er kunnugt, hve Helen dáðist að þeirri áhrifamiklu skýringu, sem Brooks biskup gaf henni á faðerni Guðs. Hann segir í einu af bréfum sínum, þar sem hann talar um, hvernig Guð með margvíslegum hætti birti kærleika sinn: "Ég held að hann skrifi það jafnvel á veggina í hinu mikla húsi nátturunnar, sem við lifum í , að hann sé faðir okkar." Næsta ár sagði hún(Helen),
"Mér virðist heimurinn fullur af góðleik, fegurð og kærleika, en hve þakklát megum við vera okkar himneska föður, sem hefur gefið okkur svo svo mikið til að gleðjast yfir og njóta! Kærleikur hans og umhyggja er ritað alls staðar á veggi nátturunnar."

Heimildir: Kirkjurit 5. hefti 1957. bls, 203 (Einstakur gestur ).
Helen Keller: Ævisaga mín, Hólmfríður Árnadóttir íslenskaði 1947.