Hver er hún

Já, hver er hún, þessi Biblía, sem boðendur kristninnar tala sífellt um og vitna til,bæði í ræðu og riti. Nafnið þýðir nánast - bækurnar - , og er komið úr grísku. Þetta er bók sem telur í dag 335 blaðsíður í íslenskri þýðingu. Hún skiptist í tvo aðal-hluta; Gamla testamenti og Nýja testamenti. Gamla testamentið var að mestu ritað á hebresku en Nýja testamentið á grísku.

Íslenska Biblían okkar inniheldur 66 "helgirit", eða bækur. Auk þess eru til svo kallaðar "Apókrýfar bækur", sem skiptast í sögurit, skáldsögur, spekirit og viðauka.

Helgiritasafn Gamla testamentisins var til í svipuðum búningi og það er nú um 130 f. Kr., en Nýja testamentisins frá því um 390 e. Kr.

Í mörg hundruð ár varðveittust bækur Gamla testamentisins sem munnleg geymd frá einni kynslóð til annarrar. Smám saman var hún svo rituð í dálka á langa papýrus- eða pergamentroðla (lengjur eða rúllur), svonefndar bókfellsræmur. Um miðja þessa öld fannst fjöldi handrita í hellum hjá Qumran við Dauðahafið. Alls um 500 handrit eða handritabrot (Dauðahafshandritin), sem höfðu að geyma m.a. alla kafla úr spádómsbók Jesaja.

Sennilegt er að samfélag Gyðinga er nefndust essear og áttu klausturbyggingu við Qumran, þar sem þeir lifðu frómu lífi í bæn, löghlýðni og fátækt, hafi falið bókasafn sitt í hellunum, er þeir urðu að flýja vegna ófriðar.

Þessi handritafundur var mikill fengur fyrir vísindamenn sem vinna við rannsóknir á ritum Gamla testamentisins.

Rit Nýja testamentisins urðu til á fyrstu og annarri öld e. Kr. Þau voru einnig rituð á papýrus eða bókfellsræmur. Á annarri eða þriðju öld e.Kr. var farið að festa ræmurnar saman í Biblíu (bókarform), bækur er nefndust "Codex". Elsti Codex sem þekktur er, fannst í klaustri einu við Sínaífjall um 300 e. Kr.

Í háskólabókasafninu Uppsölum í Svíþjóð er til handskrifuð Biblía, kölluð "Silfurbiblían". Hún er skrifuð með silfur- og gullletri á purpuralitan pergamentpappír, og er til sýnis þar.

Elstu þýðingar úr frummálinu voru á latínu. Fyrsta enska þýðingin var gerð seint á 14. öld. Fyrsta þýska þýðingin árið 1534, en það verk vann Marteinn Lúther. Á íslensku kom út fyrsta þýðing á Nýja testamentinu aðeins 6 árum seinna og Biblían öll árið 1584. (Lesa má um íslenskar biblíuþýðingar hér á vefnum).

Sífellt er unnið við að endurbæta þýðingar og þýða á fleiri tungumál. Biblían eða hlutar hennar hafa nú verið þýddir á meira en 1500 tungumál, sem töluð eru af liðlega 96% mannkyns.

Þetta er hinn ytri rammi. Hvað með innihaldið"Orðið"?

Orð Guðs geymir hún, langa og mikla sögu sem endar með fagnaðarboðskapnum til alls mannkyns.

"Því að svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf". Jóh. 3.16.

Ljúkið upp ritningunum stendur einhvers staðar. Aðeins með því að lesa eða hlusta er hægt að nema og njóta innihaldsins.

A.S.