Sjórekna Biblían

Alexander Duff, trúboðinn mikli var á leið til Indlands með skipinu ?Lady Holland.? Föt hans, verðmætar eignir og bókasafn hans í átta hundruð eintökum var um borð. Þegar skipið átti eftir örfáar mílur til Indlands, strandaði það.
Farþegar björguðust allir en farangurinn hvarf í í djúp hafsins. Alexander Duff stóð á ströndinni og skyggndist út á hafið með þá veiku von í brjósti að eitthvað af eigum hans kynni að reka að landi.
Þá kom fólkið auga á eitthvað - einhvern örlítinn depil - sem flaut á öldunum. Allir biðu með óþreyju og fylgdust með er hann færðist nær. Hvað skyldi þetta vera? Trúboðinn óð út í, náði taki á þessum örsmáa fljótandi hlut, og snéri aftur til lands. Hvað var nú þetta?
Ekki var um að villast. Þetta var Biblían hans. Af öllum bókum hans og eigum bjargaðist aðeins þessi eina bók. Alexander Duff endurheimti Biblíuna sína og tók hana sem tákn frá Guði - tók hana sem sönnun þess að hún væri hið eina af öllum eigum hans sem hefði raunverulegt gildi.
Í þessarri fullvissu hóf hann ævistarf sitt sem trúboði í Indlandi. Næsta dag byrjaði hann með því að lesa úr Biblíunni með fyrsta námsflokk sinn - fimm drengi - sem söfnuðust saman undir tré. Viku seinna voru áheyrendur orðnir þrjú hundruð.
Nokkrum árum síðar stóð stórt og fallegt tré á þessum stað. Og eitt þúsund fylgjendur fagnaðarerindisns hófu upp raddir sínar í söng og bæn til Jesú Krists.

Frásögn þessa má lesa í blaðinu ?Afturelding? frá 1948. Hún er þýdd úr ?The Sunday School Digest.?

Hver var hann þessi Alexander Duff hinn mikli trúboði? Í Britannicu má lesa m.a. Hann er skoskur trúboði í Indlandi sem stofnaði þar skóla til að kynna evrópska menningu og bókmenntir meðal Indverja. Fæddur 26. apríl 1806 í Moulin Perthshire í Skotlandi. Hann nam við St.Andrews háskóla og varð fyrir miklum áhrifum frá Thomas Chalmer, og hlaut vígslu 1829. Sama ár sendu aðalstöðvar erlenda trúboðsfélagsins hann til Indlands. Var hann fyrsti kristniboði þeirra þar í landi.
Á leiðinni varð hann tvisvar sinnum skipreka og missti allar eigur sínar. Þar sem hann finnur Biblíuna sína á reki hefst hinn merkilegi ferill hans sem kristniboði á Indlandi. Til Kalkútta komst hann loks árið 1830.
Fram að því höfðu kristniboðar á Indlandi aðeins geta unnið meðal lægri stétta og utangarðsfólks. Þeir komust ekki í snertingu við trú Hindúa eða Múslima. Stéttaskipting er mjög sterk í Indlandi og fólk af lægri stéttum á sér varla viðreisnar von þrátt fyrir góða menntun og hæfileika.
Duff stefndi því að trúboði á menningarlegum nótum. Hann opnaði fyrst skóla þar sem Biblían gegndi aðalhlutverki. Smám saman þróaðist hann upp til háskólastigs og var samþykktur sem slíkur 1835.
Duff tók þátt í að stofna dagblað í Kalkútta og var ritstjóri þess í nokkur ár. Allt fram til 1863 vann hann kappsamlega að trúboði og menningu meðal Indverja í Kalkútta. En þá varð hann að fara heim alfarinn heilsunnar vegna. Hann vann áfram til dauðadags að eflingu kristniboðs um allan heim við háskólann í Edinborg sem hann arfleiddi að öllum eigum sínum. Skyldu þær renna til stofnunar sjóðs til styrktar erlendu trúboði. Alexander Duff lést 12. feb. 1878. Hann var talinn frægasti kristniboði í Indlandi á 19. öld.

Ekki verður hjá því komist að hugsa til mannvinarins mikla ?Móður Teresu?, sem setti svip sinn á hjálp við nauðstadda einmitt í Kalkútta á tuttugustu öld.
Fátækt og mannleg neyð er yfirþyrmandi í Indlandi, þessu milljóna landi. Þá er ekki úr vegi að nefna nafn Liz Nunn. Í bókinn um ?Líf Jesú fram til ársins 2000,? má lesa. ? Eftir að hafa unnið með ungu fólki í Bretlandi fór hún til Indlands og mætti þar í borgunum þúsundum heimilislausra barna sem nutu engrar menntunar. Þau áttu ekki annarra úrkosta völ sem fullorðin en betla eða vera útigangsfólk. Hún stofnaði þar vinafélag ?Lótusbarna?. Eins og Lótusjurtin á rætur sínar í leðju árbakkanna þannig eiga börnin rætur sínar og aðsetur í sóðalegum strætum borganna. Liz trúir því að börnin geti þroskast og borið góðan ávöxt, verði þeim hjálpað til þess. Það myndi veita þeim von og vöxt.?

Í sambandi við barnahjálp í Indlandi er vert að minnast Íslendingsins Þóru Einarsdóttur sem var óþreytandi í að veita hjálp á þeim vettvangi á seinni hluta síðustu aldar, og sparaði hvorki krafta né fjármuni til þess.

Hjálparstarf íslensku Þjóðkirkjunnar rekur í dag starf meðal skólabarna í Indlandi og stuðlar að því að leysa úr ánauð ung börn sem foreldrar neyðast til vegna fátæktar að selja til þrælkunar.

Kærleiksverkin við náungann eiga enn rætur sínar í Biblíunni orði Guðs sem boðar fagnaðarerindi til allra manna um víða veröld.