Vísur úr ýmsum áttum - allar eftir konur

Tekið hefur saman Guðmundur Guðni Guðmundsson,
kennari og rithöfundur, sem enn er á lífi (2006), háaldraður, fæddur 1912.

Vatnsenda ? Rósa Guðmundsdóttir

1) Seinna nafnið sonar míns
sífellt á þig minni.
Oft var klæðfá eyja líns
uppi í hvílu þinni.

Svanborg Þórarinsdóttir

2) Veldur stundum stirðri lund
striti bundin vaka,
langar undur lítið sprund
ljúfan blund að taka.

Magndís Gestsdóttir

3) Þótt ég leggi vangann við
vart minn heiður skerði.
Eitthvað hefur almættið
ætlast til ég gerði.

Ólína Andrésdóttir

4) Eigirðu land sem ástin fann
unnt er að standast tálið,
en þegar andast ánægjan
aftur vandast málið.

Herdís Andrésdóttir

5) Þegar kringum skipið skafl
skall með ringi sína,
best sá þvinga báruafl
Breiðfirðinga mína.

Sigurey Júlíusdóttir

6) Mikið er þín menntun klár
og miklar gáfur þínar.
Þú veist alveg upp á hár
ávirðingar mínar.

María Bjarnadóttir

7) Þetta líkt sem önnur ár
augum hverfur mínum,
flytur bæði bros og tár
burt á vængjum sínum.