Grár Steinn

Ég er steinn
á ströndinni
sæbarinn, holóttur
með augu alls staðar
eilítið hrukkóttur
þybbinn og þéttur
gamall og reyndur
- grár steinn -

Ég er steinn
glamrandi - tárvotur
kitla ég öldurnar
þær vefja mig örmum
hvítar sem brúðarlín
gjálfrandi, lokkandi
en ég er staðfastur
- grár steinn -

Ég er steinn
þú mátt segja mér
öll leyndarmálin
um sorgina - gleðina -
sæluna - vonbrigðin
öllu er óhætt -
- ég þegi -
eins og steinn

A.S.