Morgunsálmar

eftir Dr. Sigurbjörn Einarsson biskup

Roðinn af morgni rís í austurvegi
rýmir í hljóði nóttin fyrir degi.
Risnir af beði, Guð með þökk og gleði
göfgum og biðjum.

Bænin skal vekja vora sál og hjarta
vermir og lýsir orðið Drottins bjarta.
Yfir oss niður ljós og líf og friður
líður af hæðum.

Dýrð sé þér, faðir, Drottinn geims og stjarna,
dýrð þér, Guðs sonur, lausn vor sekra barna,
dýrð þér, sem talar, helgar, huga svalar,
heilagi andi. Amen.


Guð faðir, himnum hærri,
ert hjarta mínu nærri
með ljós á lís míns vegi
og líkn á nótt sem degi.

Þú mætir mér að nýju
í morgunskini hlýju
og heilsar huga mínum
með helgum anda þínum.

Og bænarlogann bjarta
hann ber að köldu hjartas
og neista náðar þinnar
flýr nóttin sálar minnar.

Í lífsins tæru lindum
þú laugar mig af syndum
og nærir sál og sinni
með sælli návist þinni.

Lát orð þitt veg mér vísa
og vilja þínum lýsa,
tak dagsins verk og vanda
á vald þíns góða anda.

Þér, eilíf þrenning eina,
skal ást og trúin hreina
með gleði þakkir gjalda,
Guð um aldir alda.