Gátur

úr fórum Ástu Garðarsdóttur, Akureyri

1.
Á stafni á gömlum bóndabæ.
Best að skella hesti á það.
Skip sem æðir úfinn sæ.
Ævihluti á nýjum stað.

2.
Henni er fylgt án hugsunar.
Hnýtta tauma jafnan bar.
Á henni dansa dömurnar.
Drósarnafn sem algengt var.

3.
Sumir þetta söngla í kór.
Sæta menn því án tafa.
Einatt þarf við átök stór
Allt vill þetta hafa..

4.
Land á milli lækja er mætast.
Líffæri sem æ skal vætast.
Þjóðararfur þegna mál.
Þetta er líka kennt við bál.

5.
Eitt er að saga annað sker.
Með augu tvö en lítið sér.
Ýmsar fréttir flytur þér.
Fellur oft í september.

6.
Eins og vikur árs í honum.
Íslenskt beltisskraut hjá konum.
Styðjast við hann stjórnarmenn.
Stungið er honum í vasa enn.

7.
Hulin vann og sá ei sól.
Sögð er hún þar sem brekkan hefst.
Undirförult illskutól.
Ættarmeiður þar frá vefst.

8.
Með feiknakrafti feigð það ber.
Fyrsta hrifning æskumanns.
Afkimi sem enginn sér.
Asnaskapur náungans.

9.
Ristir sundur ránarslóð.
Rétt þar skrautleg gylling stóð.
Kjörvið skaltu kaupa í hann
Kalt þar blés um ferðamann.

10.
Í manni og dýri mörgu er.
Má það sjá í töðuflekk.
Minnir þetta mjög á sker.
Margur þaðan sjódrátt fékk.

11.
Svefnsins rjúfa sætan blund.
Syngja hátt við messugjörð.
Áður skýldu ungri hrund.
Oft þær prýða gróinn svörð.

12.
Framan á vopni fastur hékk.
Fyrrum trúðu menn á hann.
Uppi á honum útsýn fékk.
Efst í hlöðu sá ég hann.


 

Lausnir

1. Skeið: vindskeið, skeiðgangur, skip, æviskeið

2. Lína: (lína í pólitík), fiskilína, lína (í sirkus), Lína (konunafn)

3. Lag: sönglag, lag (sæta lagi, lag (vera laginn), allt vill lagið hafa.

4. Tunga; landspilda, tunga í munni, þjóðtunga, eldtunga

5. Blað: sagarblað, hnífsblað, augablað (á bíl), dagblað, laufblað

6. Stokkur: spilastokkur, stokkur (á stokkabelti), stokkur (stafur), eldspýtustokkur

7. Rót: plönturót, brekkurót, rót (illgjarn maður), ættarrót

8. Skot: byssuskot, ástarskot, skúmaskot, glappaskot

9. Kjölur: á skipi, á bók (í kili skal kjörviður), fjallvegur

10. Rif: síðurif, heyrif (rifja), í sjó, á Snæfellsnesi

11. Klukkur: vekjaraklukkur, kirkjuklukkur, prjónaklukkur, hrafnaklukkur

12. Ás: (Ásgeir), guð, hæð á landi, mæniás