Gátur A, B, C, D

A
Hvert er það dýr í heimi,
harla fagurt að sjá,
skreytt með skrauti og seymi,
ég skýri þar ekki frá,
að morgni á fjórum fótum,
það fær sér víða fleytt,
en gár þá eigi greitt?

Þá sól hefur seinna gengið
í sjálfan hádegisstað,
tvo hefur fætur fengið,
frábært dýrið það.
Gerir um grund að renna,
geysihart og ótt,
og fram ber furðu skjótt.

Þá sól hefur sest í æginn
og sína birtu ber,
dregur á enda daginn,
dýrið geyst ei fer.
Förlast þó að flestu,
fætur ber það þrjá
og þrammar þunglega á.

B
Borg sá ég eina
í upphæðum standa;
fimmdyruð var hún,
með fögru smíði.
Á voru gluggar tveir
glæsilegir.
Turnar að tölu
tveir og þrjátíu.
Yfir þar ræður
einn ágætur svanni.
Öðru nafni
illur týranni.

C
Hver eru þau hjón,
er um heiminn flakka,
að fótum fram komin
fyrir elli sakir.
Hvíla þau aldrei í húsi einu,
því hvort rekur annað
úr hýbýli sínu.

Eiga þau dætur
átta þrennar,
allar eins nefndar,
en ólíkar næsta.
Sumar eru þeirra sýnum dáfríðar,
en gnúpleitar hinar
og grimmar í bragði.

Furðu frjósöm
fljóð eru þessi;
sérhver þeirra 
á sextíu dætur.
Hlaupa þær allar í húsi einu,
standa eigi við,
né staðar nema.

Þá faðir þeirra deyr flýja þær allar.
Innið þið mér, hvað af þeim verður.

D
Hver er sú ein há höll?
Hefir hún mikinn grundvöll.
Í henni er stólpi stór.
Í þeim stólpa tólf tröppur
Í hverri tröppu fjögur hreiður.
Í hverju hreiðri sjö fuglar.
Kallast allir sitthvað.
Heita þó allir sama.

Úr Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar


 

Lausnir

A: Ungbarn, fullorðinn, gamalmenni 
B: Mannshöfuð 
C: Dagur - nótt - stundir - mínútur 
D: Ár - mánuðir - vikur - dagar