jól
Eilífur friður anda mínum svalar
alvaldur Guð er hjarta mínu nærri,
nóttin er heilög, Drottin til vor talar.
Töfrandi er geisladýrð frá stjörnu skærri.
Birtir í huga, burt er rökkurs gríma,
berst ég í leiðslu gegn um rúm og tíma.

Guðlegar myndir birtast sálarsjónum,
sveiflandi englaskari um geiminn líður,
stjörnurnar gullnu glampa í hvítum snjónum,
gistir í fjárhúskofa Jesús blíður.
Hirðarnir vaka, hljóð er næturstundin,
himnarnir opnast, Messías er fundinn.

Jólin við köllum hátíð hátíðanna,
hugtakið fagra ber hið sanna merki,
þá styttist bandið milli Guðs og manna,
mjög sést þess vottur bæði í orði og verki.
Nú segja allir: nú má engum gleyma,
núna finnst öllum best að vera heima.

Gott er að mega ganga í veislusalinn,
gleði að njóta meðal bræðra sinna,
þar sem að enginn öðrum meira´ er talinn.
Alls staðar má hið sanna hugtak finna,
fögnuður lífs og friður sé með yður,
fagnandi´ í Drottins nafni sérhver biður.

Líður að kveldi, leiftur himins skína,
ljós eru tendruð, skíði brenna á arni.
Faðir vor, sendu frið í sálu mína,
fögnuð og ástúð hverju þínu barni.
Enginn má vera úti um blessuð jólin,
öllum sé boðuð blessuð náðarsólin.
 

Guðrún Jóhannsdóttir frá Brautarholti (1892 ? 1970). Hún var fædd að Sveinatungu í Borgarfirði. Bjó nokkur ár í Brautarholti á Kjalarnesi og kenndi sig jafnan við þann stað.
Guðrún var mikil trúkona og var fyrsti formaður Kvenfélags Hallgrímskirkju í Reykjavík.
Kvæðið sem hér birtist fannst í handritum að henni látinni og birtist í ?Húfreyjunni?
árið 1979.