Hugleiðing um Engilsvík


Eftir Sr. Kristínu Pálsdóttur.

Það var á myrkri nóttu, og stormurinn æddi yfir hafið. Sögn, sem þannig hefst, lýkur oft með sorglegum viðburðum. Stundum endar slík ferðasaga í djúpi hafsins. Það var á dimmri ofviðrisnótt, sennilega með hríðaréljum. Skip var að koma af hafi með timburfarm, segir sagan, og það hafði lent í miklum hrakningum. Nú var það komið upp undir land, en miklum erfiðleikum var bundið að átta sig, og hvergi sást strönd. Útlitið var hið versta. Það var eins og himinn og haf hefðu lagst á eitt um að tortíma þessu skipi. En þó var sjálft landið, föðurland áhafnarinnar, háskalegast af öllu, því að það hafði sker sín og grynningar í fyrirsát fyrir hröktum og áttavilltum bát í myrkrinu. Vindurinn stóð af hafi, en skipshöfnin vissi ekki, hvar hún var stödd, og þó að hún legði fram alla sína orku til að fá borgið sér og skipi sínu, vissi enginn, hvernig hinum ójafna leik myndi lykta. Ekkert var sennilegra en að bæði farið og farmennirnir mundu týnast í briminu einhvers staðar við ströndina.

Var þá nokkurt ráð til bjargar? Það var ekki í heimi myrkursins, stormsins og stórsjóanna. Það var aðeins til í heimi sálarinnar. Lélegar slysavarnir, mun einhver segja. En enginn skyldi þó vanmeta björgunarstarf hins andlega heims. Áhöfnin á skipinu sem hraktist úti á öldunum, sneri huganum til himins. Þrátt fyrir hafvillur og ofviðri var ein leið ennþá fær, og hún lá til ljóssins hið efra. Sjómennirnir gerðu bæn sína til Guðs og báðu þess, að þeir mættu með einhverjum hætti finna öruggan lendingarstað, svo að lífi þeirra yrði borgið, og þeir unnu jafnframt þau heit, að í þakklætisskyni fyrir handleiðslu Guðs, skyldu þeir reisa guðshús á þeim stað, er þeir kæmu að landi, svo að um aldur og ævi yrði flutt þar lofgjörð til Guðs.-

Hér eru þáttaskil í sögunni. Tjaldið er dregið frá nýjum þætti, og vald himinsins kemur fram á sjónarsviðið. Hafrótið, myrkrið og dauðinn færast í baksýn. Við erum stödd í hinu mikla þjóðleikhúsi Íslandssögunnar sjálfrar, þar sem stríð fólksins og ljósið af himnum mætast. Oft var það svo, að öðrum megin var bylgjan björt, þó að lífsháskinn sjálfur lægi í öldudal hennar. Önnur hlið hennar vissi að birtu himinsins. Hvað var það nú, sem gerðist, þegar sjómennirnir höfðu snúið sér í bæn til Guðs? Allt í einu sáu þeir land, og þá var um tvennt að ræða. Annaðhvort mundu þeir farast í briminu eða finna lendingarstað. Það var hánótt, og ljós byggðarinnar höfðu verið slökkt. Þó sáu þeir eitt ljós. En það var nóg. Eitt ljós er sjóhröktum manni nóg, ef það lýsir honum í höfn, þar sem dauðar sálir sitji að borðum og dreymir, að þær lifi.

Sjómennirnir stefndu að ströndinni, þar sem ljósið sást, og þar varð fyrir þeim lítil vík, þar sem þeir gátu lent heilu og höldnu. En ljósið sem þeir héldu að væri í einhverjum baðstofuglugga, var ekki frá neinni mannabyggð. Það átti heima á öðru tilverusviði. Þeir sáu í flæðarmálinu bjarta og himneska veru. Það var hún sem hafði lýst þeim. En áður en þá varði, var hún horfin. Engillin hafði lokið hlutverki sínu. Staðinn, þar sem hann stóð og báturinn lenti, nefndu sjómennirnir Engilsvík, og svo heitir þessi vík enn í dag. Þeir efndu heit sitt og létu reisa kirkju örskammt þaðan ? kirkjuna á Strönd í Selvogi. Þar hafa fjölmargar guðsþjónustur verið haldnar síðan. Þar hefir Guð verið ákallaðut hátt og í hljóði um aldir.

Mörgum hefir fundist, er þeir komu á þann stað, sem þar væri enn í dag lendingarstaður tveggja heima.

Hér hafa lauslega verið rakin nokkur atriði úr hinni fornu frásögn, sem geymst hefir í munnmælum um upphaf Strandarkirkju. Hér verður engin tilraun gerð til gagnrýna þá sögu, enda er það trú okkar flestra, Íslendinga, að hún sé í aðalatriðum sönn. Þess má geta að örnefnið Engilsvík er merkilegt vitni í því máli.

Sá er boðskapur Strandarkirkju, guðshússins, sem reist er á kraftaverki fyrir trú nokkurra manna í skipi úti á hafinu. Hún mælir á sinn hljóðláta hátt til hins jarðneska vegfaranda, sem heimsækir hana: Trú þú, og þá muntu sjá ljósið. Einhvers staðar á bak við brimið muntu finna þína Engilsvík.

Í alkunnum sálmi, sem oft er sunginn, standa þessar ljóðlínur: ?Í gegnum bárur, brim og voðasker nú birtir senn.? Eitthvað þessu líkt kallar Strandarkirkja út yfir þjóðina til hvers og eins á erfiðum stundum. Hún kallar einnig á hinum góðu dögum og biður þjóðina að muna það, að ljósið, sem skein í myrkrinu, má ekki gleymast í birtunni. Hún kallar þann boðskap sinn til sjómannanna, að Guði er gott að treysta, og hverjum manni er það fararheill í lífinu að sigla eftir ljósmerkjum, sem að ofan koma, frá hinum æðra heimi.

Gestur, þú sem kemur í Strandarkirkju, þú munt, ef þú hlustar vel, heyra rödd, sem talar til

þín, og hún segir: Treystu Guði, trúðu á ljósið bak við brimið og hjálpaðu jafnframt til þess, að einhver hinna mörgu strandstaða í lífinu breytist í Engilsvík, þar sem þeim, sem lengi hefir hrakist og lengi villst, er lýst í örugga höfn, og þá munt þú einnig einhvern tíma sjá, að þar sem þú kemur að landi, bíður engillinn eftir þér.

Slíkur er boðskapur Strandarkirkju.

Úrdráttur úr frásögn Helga Sveinssonar um ?Engilsvík? birt í Kirkjuritinu 18. árg. 1. hefti.

Kristín Pálsdóttir.