Vísur eftir konur

Vísur úr ýmsum áttum, allar eftir konur.
Tekið hefur saman Guðm. Guðni Guðmundsson, kennari og rithöfundur, sem enn er á lífi (2006), háaldraður, fæddur 1912.

Vatnsenda - Rósa Guðmundsdóttir

1. Seinna nafnið sonar míns
    sífellt á þig minni.
    Oft var klæðfá eyja líns
    uppi í hvílu þinni. 

Vatnsenda - Rósa Guðmundsdóttir var kennd við bæinn Vatnsenda í Húnavatnssýslu, þar sem hún bjó um skeið. Hún var úr Eyjafirði. Hún er vel þekkt af vísum sínum og ástafari, helst í sambandi við Natan Ketilsson á Illugastöðum á Vatnsnesi, sem þessi vísa er kveðin til.

Svanborg Þórarinsdóttir

2. Veldur stundum stirðri lund
     striti bundin vaka,
     langar undur lítið sprund
     ljúfan blund að taka.

Svanborg Þórarinsdóttir var systir konu minnar og af hagyrðingum komin í Húnavatnssýslu. Hún var um skeið bóndi í Hallstúni í Holtum. Hún var vel hagmælt en orti þó sjaldan.  

Magndís Gestsdóttir

3. Þótt ég leggi vangann við
     vart minn heiður skerði.
     Eitthvað hefur almættið
     ætlast til ég gerði.

Magndís Gestsdóttir . Hún er nú ( á níunda áratug síðustu aldar) ekkja í Keflavík. Hún er úr Steingrímsfirði, systir listamannsins og skáldsins Jörundar Gestssonar á Hellu í Steingrímsfirði. Ég heyrði hana stundum kasta fram vísu þegar hún var ung og mikið var um vangadans á sveitaböllunum.  

Ólína Andrésdóttir

4. Eigirðu land sem ástin fann
     unnt er að standast tálið,
     en þegar andast ánægjan
     aftur vandast málið.
 
Ólína Andrésdóttir. Systir Herdísar sem sagt er frá hér á eftir. Þær systur voru úr Breiðafjarðareyjum og var systir þeirra María, síðast í Stykkishólmi, elst allra manna á Vesturlandi 106 ára.

Herdís Andrésdóttir

5. Þegar kringum skipið skafl
     skall með ringi sína,
     best sá þvinga báruafl
     Breiðfirðinga mína.

Systurnar Herdís og Ólína gáfu út ljóðabók eftir sig sem heitir: Ljóðmæli. Þær munu þekktar um allt land fyrir sínar vel gerðu vísur.  

Sigurey Júlíusdóttir

6. Mikið er þín menntun klár
    og miklar gáfur þínar.
    Þú veist alveg upp á hár
    ávirðingar mínar.
 
Sigurey Júlíusdóttir var lengi á Drangsnesi í Steingrímsfirði. Ættuð frá Djúpi á Ströndum. Hún gerði góðar vísur  og fór létt með að koma þeim saman. Gáfuð kona og víððsýn.

María Bjarnadóttir

7. Þetta líkt sem önnur ár
    augum hverfur mínum,
    flytur bæði bros og tár
    burt á vængjum sínum.

María Bjarnadóttir var afkomandi Bólu - Hjálmars og var hún eins og börn hennar og margt fólk úr þeirri ætt vel hagmælt. Ljóðabók er eftir hana sem heitir: Haustlitir. Hún var lengi búsett á Norðfirði.

Anna Sveinsdóttir

8. Þegar koldimm skúraský   
    skemmtun alla banna
    hef ég stundum hinkrað í
    heimi minninganna.

Anna Sveinsdóttir er frá Stokkhólma í Vallhólmi í Skagafirði. Var lengi húsfreyja að Varmalandi í Sæmundarhlíð. Látin fyrir nokkrum árum. Vísur eftir hana eru í Skagfirskum ljóðum. 

María Rögnvaldsdóttir

9. Oft þó fái andann dreymt
    efnishyggju dagsins,    
    þú munt aldrei geta gleymt
    gulli sólarlagsins.

María Rögnvaldsdóttir. Hún var dóttir Rögnvalds Björnssonar bónda í Réttarholti í Blönduhlíð. Átti lengi heima á Sauðárkróki. Hún á ljóð í Skagfirskum ljóðum og ýmislegt af ljóðum hefur birst eftir hana í blöðum og tímaritum.

Signý Hjálmarsdóttir

10. Oft ég minnist okkar kynna,
      örlög spinna þráð sinn  æ,
      enn ég finn til arma þinna
      og um kinnar hlýjan blæ.

Signý Hjálmarsdóttir var frá Húsabakka í Aðaldal. Fædd 1920 en var eftir giftingu sína húsfreyja á Sandi í Aðaldal. Hún dó á Húsavík 1956. Henni er svo lýst: Vel meðalhá, grönn og beinvaxin, hæglát en djörf og ákveðin í framkomu, ennið hátt, augun stór, gráblá. Upplitið hreint og djarft, fölleit í andliti og með dökkbrúnt hár. Til er ljóðabók eftir Signýju,"Geislabrot."

Guðrún Árnadóttir

11. Þola urðum skin og skúr
      skilningsþurrð og trega,
      þó hefur snurðum okkar úr
      undist furðulega.

Guðrún Árnadóttir var frá Oddsstöðum í Lundareykjadal. Átti lengi heima í Reykjavík og var félagi í Kvæðamannafélaginu "Iðunni." Hún á ljóð í "Borgfirskum ljóðum." Mjög góðar ferskeytlur eru eftir hana.

Guðrún Benónýsdóttir

12. Oft ég sveina fer á fund
       frá því greina sögur.
       Veitir einatt unaðsstund
       ástin hrein og fögur.

Guðrún Benónýsdóttir frá Kambhóli í Víðidal. Hún er alsystir hagyrðinganna alkunnu
Valdimars og  Sveinbjarnar Benónýssona. Hún á efni í ljóðasafninu; "Húnvetningaljóð."

Ingibjörg Sigfúsdóttir

13. Nú má kaupa þessi þjóð
      þunnt og gyllt í sniðum,
      í gerfiskinni, gerfiljóð
      af gerfiljóðasmiðum.

Ingibjörg Sigfúsdóttir er frá Forsæludal í Vatnsdal, en var húsfreyja á Refsteinsstöðum í Víðidal. Hún á ljóð í Húnvetningaljóðum.

Guðríður Björnsdóttir

14. Ofurlítið ástarbrall
       allir vilja reyna.
       En það er mörgum meira fall
       en má í fyrstu greina.

Guðríður Jóhanna Björnsdóttir var lengi húsfreyja í Haukatungu í Kolbeinsstaðahreppi. Hún á stökur í bókinni "Snæfellingaljóð." Foreldrar hennar voru Björn Gottskálksson bóndi á Kolviðarnesi í Eyjahreppi og kona hans Helga Jóhannsdóttir.

Látra-Björg Einarsdóttir

15. Róðu betur Kár minn kall,
      kenndu ekki í brjósti um sjóinn.
      Harðara taktu herðafall
      hann er á norðan gróinn.

Látra-Björg Einarsdóttir var fædd 1716. Foreldrar hennar voru Einar skáld Sæmundsson og kona hans Margrét Björnsdóttir, bæði prestabörn. Björg er kennd við Látra á Látraströnd. Hún var lengi sjómaður, fyrst hjá föður sínum en síðan formaður og frá þeim tíma er þessi vísa hennar. Talin gott skáld og hafa vísur hennar gert hana ódauðlega. Dó á vergangi.

Katrín Einarsdóttir

16. Ef að þótti þinn er stór
      þá er von að minn sé nokkur.
      Sama blóðið er í okkur,
      dropar tveir en sami sjór.

Katrín Einarsdóttir var móðir Einars skálds Benediktssonar og er vísan ort til hans.

Kristín Jónsdóttir

17. Teygir brimið toppinn sinn.
       Titrar bjargið háa.
       Flúinn er þaðan fuglinn minn
       og fallið hreiðrið smáa.

Kristín Jónsdóttir í Flatey á Breiðafirði, ljósmóðir fædd í Svefneyjum. Viðtal við hana ásamt vísum eftir hana eru í "Breiðfirskum sögnum" eftir Bergsvein Skúlason.

Guðrún Andrésdóttir

18. Seggi snara sá ég lalla
      söltum þara upp frá geim,
      en höfuðið bar yfir hina  alla
      hann sem var á undan þeim.

Guðrún Andrésdóttir. Var einnig ljósmóðir í Flatey, fædd 1832. Hún var dóttir Andrésar Björnssonar formanns í Flatey og konu hans Guðrúnar Einarsdóttur systur Þóru í Skógum, móður Matthíasar skálds.
Guðrún var systir Andrésar föður systranna Herdísar og Ólínu og Maríu er varð um 106 ára. Guðrún var fljót að kasta fram vísu. Vísuna sem hér er eftir hana gerði hún er hún sá mannsefnið sitt í fyrsta sinn. Hann var glæsimenni en drukknaði ungur.

Þura í Garði Árnadóttir

19. Betra er að "passa" á feldi flær
      en frelsa mey frá spjöllum.
      Lengra ekki námið nær,
      "náttúran ræður öllum."

Þura í Garði Árnadóttir var ekki aðeins hagmælt og hraðkvæð en einnig ættfræðingur og er til "Skútustaðaætt" eftir hana. Óhætt er að segja að hún var landskunn.

Ólína Jónasdóttir

20. Ég í steini bundin bý,
       bási meinaþröngum.
       Geisla hreina á þó í
       andans leynigöngum.

Ólína Jónasdóttir var lengi búsett á Sauðárkróki en var frá Kotum í Skagafirði. Hún var systir hins kunna skálds og ferðalangs Hallgríms Jónassonar kennara. Hún á vísur í Stuðlamálum og  Skagfirskum ljóðum. Einnig er eftir hana ljóðabókin
"Ef hátt lét í straumnið héraðsvatna."