Ævintýri um jól

Eftir Harold S. Stewart.

Það var svo kalt, að það marraði í snjónum undir fótum Stone prófessors, þegar hann gekk upp brekkuna frá háskólanum á leið heim til sín. Hann var of seinn í kvöldmatinn, því honum hafði dvalist lengur á bókasafninu en hann hafði ætlað sér. Þegar hann kom fyrir húshornið heima hjá sér, sá hann marga bíla við gangbrautina og húsið allt uppljómað. Þá mundi hann það! Konan hans hafði jólaboð. Hann átti að vera kominn heim fyrir langa löngu.

Prófessor Stone fór inn um kjallaradyrnar, smeygði sér úr skóhlífunum og hengdi frakkann á nagla, áður en hann læddist upp kjallarastigann. Hann ætlaði að láta líta svo út sem hann hefði verið viðstaddur allt kvöldið, en ekki leið á löngu fyrr en einhver kallaði: "Þarna er hann!"

"Opnaðu böggulinn, opnaðu hann strax ." Prófessorinn var dreginn inn í borðstofuna og að borðinu, en þar lá einkennilega lagaður böggull.

Deildarforsetinn sagði:" Farðu varlega Stone, mig langar til að fá þessi japönsku frímerki." Prófessorinn skoðaði böggulinn. Á honum voru mörg falleg japönsk frímerki. Hann skar þau úr umbúðapappírnum og rétti deildarforsetanum. "Ætli þetta sé ekki frá japanska stúdentinum, sem var hjá okkur í fyrra ?" sagði Stone. "Mig minnir að hann segðist ætla að senda mér eitthvað."

"Opnaðu böggulinn maður" kölluðu gestirnir.

Innanundir brúna pappírnum var hvítur böggull og bundið um hann breiðu, hvítu silkibandi. "En hvað þetta er fallegt silkiband," sagði einhver. "Má ég fá það?"

Og kona prófessorsins sagði. "Farðu gætilega góði, ég ætla að hirða þennan fallega ríspappír."

Prófessorinn rétti þeim silkiborðann, sem vildi fá hann og sagði: "Japanski pilturinn sagði að faðir sinn væri í þjónustu keisarans og hann gæti sent mér."

Lengra komst hann ekki, því að innan úr pappírnum birtist fagurlega myndskreytt lakkaskja. "Þetta er afburðafagurt sýnishorn af japanskri list," sagði einhver. "Þú ert vís með að lána safninu öskjuna""

"Sjálfsagt," ansaði prófessorinn, "en það var nú ekki askja, sem pilturinn ætlaði að senda mér. Mig minnir.."

"Opnaðu hana, opnaðu hana," hrópuðu allir.

Prófessorinn opnaði öskjuna og tók upp stranga af skrautlegu mustruðu, japönsku silki. "Sjáið þið," sagði kona hans. "Er það ekki fallegt? það er nóg í gluggatjöld."

"Ekki var það silki," sagði prófessorinn. "Það var eitthvað frá keisaranum.

"Það var."  " Farðu varlega," sagði einhver. "Það er askja innan í silkinu"

Það reyndist rétt. Innan í silkinu var útskorin íbenviðaraskja. Prófessorinn steig upp á stól og lyfti íbenviðaröskjunni hátt á loft. "Ég ætla að geyma þessa öskju,

þó hún sé ekki hin eiginlega gjöf. Ég veit núna hvað það er. Það er telauf. Pilturinn sagði að faðir sinn, sem er í þjónustu Japanskeisara, myndi senda mér ögn af telaufi keisarans sjálfs." Hann opnaði íbenviðaröskjuna og sýndi gestunum ofan í hana, og hún virtist vera full af telaufum.

"Það er kominn tetími," sagði konan hans. "Ég skal búa til handa ykkur keisarate." Hún gerði það. Og þegar allir gestirnir voru búnir að fá í bollana, smökkuðu þeir á - og bragðið var alveg hræðilegt.

Samt báðu menn um meira, til að vera kurteisir.

Kona prófessorsins seildist eftir meira tei í íbenviðaröskjuna. Hvað var nú þetta?

Eitthvað hart var grafið í laufunum. Hún gróf upp lítið, listilega skreytt fílabeinsskrín - og í því var - te ! Það lagði ilm af þessu tei og enginn hafði bragðað þvílíkan afbragðsdrykk.

Í hinu fjarlæga landi Japan hafði það gerst, að faðir stúdentsins sagði keisaranum hve góður prófessorinn hefði verið unga manninum. Þá samþykkti keisarinn að senda prófessornum gjöf. Hann kallaði á stallara sinn og skipaði honum að senda te heim til föður piltsins.

Stallarinn hugsaði með sér. "Svona virðulega gjöf verð ég að láta í verðugt ílát." Svo hann valdi fegursta fílabeinsskrínið, sem hann átti á heimili sínu og fyllti það af tei. Faðir unga piltsins tók við fílabeinsskríninu og hugsaði með sér. "Það verður að búa vel um slíka gjöf." Hann lét fílabeinsskrínið ofan í fallegustu íbenviðaröskjuna, sem hann átti og fyllti allt umhverfis með móberjalaufi.

Eiginkona hans vafði íbenviðaröskjuna í marga metra af fegursta silki og hugsaði með sér. "Jafnvel þetta sæmir ekki gjöf keisarans."

Stúdentinn lagði silkivöndulinn í fallegustu lakköskjuna sem hann átti og fékk hana þjóni sínum. "Þetta er tepakki frá keisaranum. Búðu vel um hann og sendu hann til prófessors Stone."

Þjóninn skildi hve verðmæt gjöfin var og vafði lakköskjuna í hvítan ríspappír

og batt um með hvítu silkibandi, sem hann sjálfur átti.

Á pósthúsinu sagði hann við póstmanninn. "Hugsaðu þér, þetta er te sem keisarinn sendir prófessor í Ameríku."

Póstmaðurinn valdi fallegustu frímerkin og límdi á þessa verðmætu gjöf, sem í voru svo margir fagrir hlutir.

En innsti kjarninn var te keisarans.

Þannig er það með allar fallegu umbúðirnar, sem menn hafa vafið utanum hina dýru gjöf jólanna.

Hver og einn verður að opna sína jólagjöf með gætni, en villast aldrei á kjarnanum og umbúðunum