Gjafir vitringanna

Ein króna og áttatíu og sjö aurar. Það var allt og sumt. Og sextíu aurar í einseyringum sem dregnir höfðu verið saman á löngum tíma. Sigga taldi peningana þrisvar. Ein króna, áttatíu og sjö aurar. Og jóladagurinn á morgunn.

Hér voru auðsjáanlega engin úrræði önnur en að kasta sér niður á gamla sófagarminn og tárast. Sigga gerði það líka.

Meðan húsfreyjan er að gráta skulum við athuga híbýlin. Allt er fátæklegt.

Úti á ganginum er bréfakassi sem bréf hafa aldrei komið í. Þar var hnappur til að styðja á en engum mannlegum fingri var unnt að framkalla þar nokkra hringingu. Þar var líka nafnspjald með nafni húsbóndans.

Kristjáns Kristjánssonar. Hann hét að sönnu aldrei annað en Stjáni þegar hann kom heim og var margkysstur og faðmaður af húsfreyjunni, Siggu, sem þegar hefur verið nafnkynnt fyrir lesaranum.

Sigga settist upp og strauk af sér tárin. Hún gekk út að glugganum og horfði á gráan kött sem fetaði eftir gráum steinvegg út við gráan húsgarðinn.

Að morgni var jóladagur og hún átti ekki nema eina krónu og áttatíu og sjö aura til þess að kaupa jólagjöf handa Stjána. Hún hafði sparað og sparað og þetta var árangurinn. Útgjöldin höfðu orðið meiri en hún ætlaði. Marga glaða stund hafði hún bollalagt hvað hún ætti að gefa Stjána. Auðvitað þurfti það að vera dýrmætt, eitthvað sem vert væri að vera í eigu hans.

Allt í einu stökk hún á fætur og gekk að speglinum. Augun leiftruðu eins og henni hefði dottið nýtt ráð í hug en liturinn var horfinn úr andlitinu.

Í eigu þeirra hjóna var tvennt sem þau mátu mjög mikils. Annað var gullúr Kristjáns, sem hann hafði erft eftir föður, afa og langafa, hitt var hárið á Siggu.

Ef drottningin af Saba hefði búið í næsta herbergi þá hefði Sigga hengt hárið sitt út um gluggann til þerris einu sinni í viku til þess að fella skugga á gimsteina hátignarinnar af Saba. Og ef Salómon konungur hefði búið á neðri hæðinni og geymt þar öll auðæfin þá mundi Kristján hafa tekið upp úrið um leið og hann gekk fyrir dyrnar, til þess að láta Salómon reyta á sér skeggið af öfund.

Hárið féll um Siggu eins og skikkja í skínandi sólskini. Hún fléttaði hárið og bjó um það í skyndi. Eitt augnablik hikaði hún og tár féll á snjáða rauða gólfdúkinn, svo setti hún upp gamla brúna hattinn, fór í gömlu brúnu kápuna, augu hennar tindruðu ennþá. Hún þaut ofan stigann og út á götuna.

Hún nam staðar við dyr með yfirskriftinni "Hér er keypt og selt hár."

"Viltu kaupa hárið á mér ?" spurði Sigga.

"Taktu af þér hattinn og láttu mig sjá það." sagði konan.

"Tuttugu krónur."

"Láttu mig fá þær fljótt," sagði Sigga.

Næstu tvo klukkutímana þaut hún marga götuna á enda. Hún var að leita að festi handa Stjána. Henni þótti hann nógu lengi búinn að nota þvengspotta fyrir festi.

Loksins fann hún hana. Henni fannst hún áreiðanlega hafa verið gerð handa Stjána. Það var engin festi lík henni í neinni búð. Hún var alveg eins og Stjáni, snilldin sjálf að allri gerð, og skíra gull öll í gegn. Þessi lýsing átti jafnt við bæði. Sigga borgaði tuttugu og eina krónu fyrir festina og hélt heim hröðum skrefum með áttatíu og sjö aura í vasanum.

Þegar Sigga kom inn í herbergið sitt fór hún að átta sig og hugsa fram á veginn.Hún greip krullujárnið sitt og krullaði það sem eftir var af hárinu til þess að reyna að bæta úr þeim spjöllum sem örlæti ástarinnar hafði valdið. En það getur verið nógu erfitt, vinir mínir, reglulegt Grettistak oft og tíðum.

Eftir fjörutíu mínútur var hárið orðið að hrokknum smálokkum sem lágu þétt um allt höfuðið. Hún var nauðalík strák sem er nýstrokinn úr skóla.

Hún virti útlitið vandlega fyrir sér í speglinum.

"Ef Stjáni rýkur ekki út áður en hann hefur litið á mig í annað sinn, þá líklega segir hann að ég sé lík smalastelpu," sagði hún við sjálfa sig. "En hvað gat ég gert með eina krónu áttatíu og sjö aura í vasanum ?"

Jólakaffið sauð á katlinum og hangikjötið var að verða soðið.

Stjáni kom alltaf heim á sama tíma.

Sigga sat við borðshornið rétt hjá dyrunum þar sem Stjáni var vanur að ganga inn. Hún gat varla haft augun af festinni. Nú heyrði hún hann koma. Hún fölnaði upp eitt augnablik. Það var siður hennar að biðja í hljóði við smávægi dagsins. Hún byrgði andlitið í höndunum og hvíslaði: "Góði Guð, gefðu að honum þyki ég ennþá falleg." 

Dyrnar opnuðust. Stjáni gekk inn og lokaði. Hann var magur og alvarlegur. Hann var aðeins tuttugu og tveggja ára og hafði þegar húsbóndaskyldur á herðum.

Stjáni stóð grafkyrr eins og myndastytta. Hann glápti á Siggu. Það var eitthvað í svipnum sem hún gat ekki lesið og hún óttaðist það. Ekki var það reiði, ekki undrun né ótti. Það var ekkert af því sem hún hafði búist við. Hann bara glápti á hana eins og hann væri búinn að missa ráð og rænu.

Sigga stóð á fætur og þaut til hans. "Elsku Stjáni horfðu ekki svona á mig. Eg lét klippa af mér hárið og seldi það, ég gat ekki lifað þessi jól án þess að gefa þér jólagjöf. Það sprettur fljótt aftur. Þú mátt ekki reiðast af því, ég varð að gera það. Segðu gleðileg jól og svo skulum við vera kát. Þú veist ekki hvað jólagjöfin þín er yndisleg."

"Þú hefur klippt af þér hárið," stundi Stjáni upp með erfiðismunum eins og hann væri ekki ennþá búinn að skilja hana, jafnvel eftir mikil heilabrot.

"Klippt það af og selt það," sagði Sigga. "Þykir þér ekki eins vænt um mig fyrir því ? Ég er ég sjálf þótt hárið sé farið.

Stjáni skimaði ráðleysislega um stofuna. "Þú segir að hárið á þér sé farið," sagði hann næstum því vitfirringslega.

"Það er ekki til neins að neita því," sagði Sigga. "Það er farið og selt meira að segja. Það er jólanóttin, vertu ekki ósáttur vinur minn, ég seldi það þín vegna. Það getur verið að höfuhár mín séu horfin, en það verður aldrei með tölum talið hvað mér þykir vænt um þig. Á ég nú ekki að koma með jólamatinn ?"

Það var eins og Stjáni áttaði sig allt í einu. Hann faðmaði Siggu, svo dró hann böggul upp úr vasa sínum og fleygði honum á borðið.

"Þú mátt ekki misskilja mig Sigga," sagði hann. " Þú mátt ekki ímynda þér að hárskeri eða nokkur annar geti látið mér hætta að þykja vænt um þig. En þegar þú opnar böggulinn þarna skilurðu af hverju ég var hálf utan við mig."

Sigga leysti upp böggulinn í skyndi. Hún rak fyrst upp dálítið gleðióp og svo komu tár fram í augun. Þarna lágu skínandi fallegir hárkambar sem Sigga hafði oft litið laungunaraugum á í búðarglugga þar í grenndinni. Þeir voru alveg í lit við hárið horfna. Aldrei hafði henni dottið í hug að hún gæti eignast þá. Nú átti hún þá en hárið, sem þeir áttu að skreyta, var farið.

Hún þrýsti þeim að brjóstinu og sagði:" Hárið á mér sprettur svo fljótt, Stjáni."

Allt í einu spratt hún á fætur og sagði:" Ó, þú ert ekki farinn að sjá yndislegu jólagjöfina þína." Hún hélt upp festinni sem glitraði eins og hún endurskini af birtunni í sál Siggu.

"Er hún ekki falleg, Stjáni ? Ég leitaði að henni um alla borgina, nú verður þú að líta hundrað sinnum á klukkuna á dag. Fáðu mér úrið þitt svo ég geti séð hvernig hún fer við það."

Í stað þess að hlýða fleygði Stjáni sér í sófann, setti hendurnar undir höfuðið og brosti. "Sigga," sagði hann. "Við skulum setja jólagjafirnar einhvers staðar afsíðis og geyma þær first um sinn. Þær eru allt of fallegar til þess að brúka þær strax. Ég seldi úrið til þess að kaupa kambana handa þér og nú skulum við fara að borða jólamatinn."

Þótt klaufalega og barnslega tækist til með jólagjafirnar þá er efamál að nokkur hafi kunnað betur að gefa jólagjafir en Sigga og Stjáni.

Allt frá þeim tíma að vitringarnir frá Austurlöndum fluttu barninu í jötunni gjafirnar og fram á okkar daga. Þau voru sannnefndir vitringar því að þau kunnu listina að fórna því dýrasta fyrir aðra.

Höfundur: O. Henry.