Óskir trjánna

Fyrnagamalt að stofni til, mótað á vörum kynslóðanna.

Þessi gerð sem hér fer á eftir er endursögn bandaríska rithöfundarins Angelu Elwell Hunt og kom út á prenti á ensku árið 1989 undir heitinu The Tale of Three Trees, ríkulega myndskreytt af Tim Jonke. Sú bók er margverðlaunuð og hefur nú verið þýdd á sautján tungumál og ein milljón eintaka selst. Íslenska þýðingu gerði Hreinn S. Hákonarson og gaf Skálholtsútgáfan hana út.

Sagan er á þessa leið:

Einu sinni stóðu þrjú lítil tré uppi á fjalli nokkru og létu sig dreyma um hvað biði þeirra þegar þau yrðu stærri. Fyrsta tréð leit upp í skínandi bjartan næturhimininn en þar sindruðu stjörnurnar eins og litlir demantar. Það sagði:

"Ég vil verða gullkista; geyma fjársjóð og svigna af gulli og verða troðin af dýrmætum eðalsteinum. Ég verð langfallegasta gullkistan í öllum heiminum." 

Annað tréð horfði á lækjarsprænu skoppa niður fjallshlíðina í átt til sjávar.

"Ég vil verða stórt og sterkt skip" sagði það. "Ég vil fara um mikil höf og sigla með volduga konunga. Ég vil verða sterkasta skipið í öllum heiminum"

Þriðja tréð renndi augum yfir dalinn fyrir neðan en þar í þorpinu var fólk á ferð og flugi í dagsins önn. "Ég vil bara alls ekki fara af þessu fjalli," sagði það. "Ég vil verða svo stórt að þegar fólk horfir á mig þá líti það til himins og hugsi til Guðs. Ég vil verða stærsta tréð í öllum heiminum."

Árin liðu hvert af öðru. Það rigndi og sól skein í heiði. Litlu trén urðu stór og bústin. Dag nokkurn gengu þrír skógarhöggsmenn á fjallið.

Fyrsti skógarhöggsmaðurinn leit á fyrsta tréð og sagði: " Þetta er fallegt tré og hentar mér alveg prýðilega." Hann hóf öxi sína á loft og sólin glampaði á axarblaðið. Fyrsta tréð féll til jarðar. " Nú verður smíðuð gullkista úr mér", hugsaði tréð."Ég mun geyma stórkostlegan fjársjóð"

Annar skógarhöggsmaðurinn leit á annað tréð og sagði: " Þetta tré er stórt og hentar mér alveg prýðilega." Og hann hóf  líka öxi sína á loft og sólin glampaði á axarblaðið. Annað tréð féll til jarðar. " Nú mun ég sigla um öll heimsins höf," hugsaði tréð. " Ég verð sterkbygtt skip sem sæmir konungum."

Þriðja trénu brá heldur en ekki í brún þegar þriðji og síðasti skógarhöggsmaðurinn leit á það. Það stóð svo beinvaxið og hátt og benti djarflega til himins. En skógarhöggsmaðurinn kærði sig kollóttan og það söng í öxinni. Hann tuldraði,; "Mér er svosem sama hvaða tré ég fæ."

Og þriðja tréð féll til jarðar.

Fyrsta tréð gladdist innilega þegar skógarhöggsmaðurinn dró það til trésmiðs nokkurs. En það hvarflaði ekki að iðjusömum trésmiðnum að gera úr því gullkistu. Nei, vinnulúnar hendur hans smíðuðu úr trénu jötu handa skepnum. Tréð sem eitt sinn var svo fagurt á að líta svignaði ekki af gulli né dýrum fjársjóði. Það var þakið sagi og fyllt heyi handa soltnum búpeningi.

Annað tréð brosti með sjálfu sér þegar það var flutt til skipasmiðsins.

En þann dag var ekkert tilkomumikið skip smíðað. Tréð sem eitt sinn hafði verið svo sterkt var sagað niður og úr því smíðaður ósköp venjulegur fiskibátur. Báturinn var svo lítilfjörlegur og veikbyggður að hans beið ekki einu sinni sigling á fljótum og þaðan af síður um úthöf. Nei, hann var fluttur á lítið stöðuvatn. Af bátnum lagði megna fiskilykt því á hverjum degi kom hann með vænan afla að landi.

Þriðja tréð varð afar skelkað þegar skógarhöggsmaðurinn hjó það niður í sterka bjálka og setti í timburgeymslu. "Hvað hefur gerst?" hugsaði tréð með sér undrandi. Það sem eitt sinn hafði verið svo hávaxið! "Og ég sem vildi aldrei annað en vera uppi á fjallinu og benda til Guðs."

Og margir, margir dagar gengu hjá og nætur liðu. Trén þrjú gleymdu næstum því draumum sínum.

Nótt eina helltist gullinn stjörnuljómi yfir fyrsta tréð þegar ung kona lagði nýborið barn sitt í jötu. "Ég vildi óska þess að ég gæti búið til vöggu handa honum," hvíslaði eiginmaður hennar lágum hljóðum. Móðirin unga þrýsti hönd hans og brosti blíðlega. Stjörnurnar vörpuðu ljóma sínum á steran viðinn. "Þessi jata er falleg," sagði hún. Og skyndilega áttaði fyrsta tréð sig á því að það geymdi mesta fjársjóð veraldar.

Kvöld nokkurt fór þreyttur ferðalangur ásamt vinum sínum um borð í gamla fiskibátinn. Ferðalangurinn lagðist til svefns um leið og báturinn sigldi hljóðlega út á vatnið. Allt í einu skall á stormur mikill með þrumum og eldingum. Háar öldur risu á vatninu og lömdu bátinn utan.Litla tréð skalf og nötraði því það vissi mætavel að báturinn var allt of veikbyggður til að geta staðist svona ógurlegan storm og mikið úrfelli og skilað svo mörgum mönnum heilum á land. Þreytti ferðalangurinn vaknaði. Hann reis upp, rétti út hönd sína og mælti: "Haf hljótt um þig." Storminn lægði jafn snögglega og hann hafði brostið á og verð stillilogn. Og skyndilega áttaði annað tréð sig á því að það flutti konung himins og jarðar.

Föstudag nokkurn varð þriðja tréð forviða þegar bjálkar úr því voru dregnir harkalega úr löngu gleymdum viðarstafla. Það kveinkaði sér þegar það var borið í gegnum mikinn mannfjölda sem steytti hnefann reiðilega og lét hæðnisorð fjúka. Og ótti mikill hljóp um æðar þess þegar hermenn negdu hendur manns á það. Því fannst það vera ljótt, grimmt og vægðarlaust.

En við sólarupprás á sunnudagsmorgni þegar jörðin titraði af fögnuði og gleði skildi þriðja tréð að kærleikur Guðs hafði öllu breytt.

Hann hafði gert fyrsta tréð öðrum fegurra.

Annað tréð hafði hann fyllt styrkleika

Og í hvert sinn sem menn hugsuðu til þriðja trésins var hugsun þeirra beint til Guðs. Það var betra en að vera heimsins hæsta tré.